Fótbolti

Sjáðu varamarkvörð Fílabeinsstrandarinnar tryggja liðinu ævintýralegan sigur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Boubacar Barry var hetjan.
Boubacar Barry var hetjan. vísir/getty
Fílabeinsströndin varð í gærkvöldi Afríkumeistari í annað sinn eftir sigur á Gana, 9-8, í vítaspyrnukeppni.

Hvorugu liðinu tókst að skora mark í venjulegum leiktíma né framlengingu og þurfti því enn og aftur að skera úr um sigurvegara á Afríkumótinu með vítaspyrnuekppni.

Wilfried Bony og Junior Tallo brenndu af fyrstu tveimur spyrnum Fílabeinsstrandarinnar á meðan Gana skoraði úr báðum sínum og var komið í vægast sagt góða stöðu.

En þá varði Boubacar Barry, markvörður Fílanna, þriðju spyrnu Gana og Frank Acheampong skaut framhjá á sama tíma og Fílabeinsströndin skoraði úr tveimur í röð. Bæði lið skoruðu úr fimmtu spyrnum sínum og fóru liðin í bráðabana með jafna stöðu, 3-3.

Skemmst er frá því að segja að eftir að hafa brennt af tveimur fyrstu spyrnunum skoraði Fílabeinsströndin úr níu í röð og tryggði sér sigurinn.

Boubacar Barry, markvörður liðsins, skoraði úr síðustu spyrnunni eftir að hafa varið frá kollega sínum Brimah Razak. Barry hefði í raun ekki átt að spila leikinn því hann kom á mótið sem varamarkvörður liðsins. Aðalmarkvörðurinn meiddist í útsláttarkeppninni.

Fílabeinsstrendingar fögnuðu ógurlega enda hafa þeir ekki unnið Afríkumótið í 23 ár, eða síðan þeir unnu Gana í vítaspyrnukeppni árið 1992. Þá voru teknar 24 vítaspyrnur en 22 í gærkvöldi.

Hér að neðan má sjá það helsta úr leiknum og vítaspyrnukeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×