Innlent

Hvessir aftur í kvöld og í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Snjómugga verður um landið vestanvert frá um klukkan 17 til 18 og síðar hríðarveður.
Snjómugga verður um landið vestanvert frá um klukkan 17 til 18 og síðar hríðarveður. Vísir/Pjetur
Spáð er lægðabylgju úr suðvestri og með henni hvessir heldur aftur í kvöld og í nótt. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að snjómugga verði um landið vestanvert frá um klukkan 17 til 18 og síðar hríðarveður, en slydda eða bleytusnjór á láglendi. „Kuldaskil fara yfir vestanlands upp úr miðnætti og í kjölfarið frystir á láglendi og þá með éljum og hálku.“

Í tilkynningunni segir að búist sé við að viðgerð á Djúpvegi sunnan Hólmavíkur ljúki milli klukkan 20 og 22 í kvöld og verði umferð hleypt á í framhaldi af því.

„Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir þó er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum.

Á Vestfjörðum er hálka og éljagangur og eitthvað um hálkubletti. Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum en hálka og skafrenningur á Gemlufallsheiði. Óveður og hálka er á Mikladal og Hálfdáni.

Vegur 61 við Skeljavík, rétt sunnan við Hólmavík er lokaður þar sem stórt skarð hefur myndast í veginn og er reiknað með að viðgerð geti tekið töluverðan tíma.

Á Vesturlandi er hálka á Bröttubrekku og hálkublettir á Holtavörðuheiði.

Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði.

Á Austurlandi er víða orðið greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað. Greiðfært er með suðausturströndinni.

Vegna vinnu í Múlagöngum má búast við umferðartöfum aðfaranótt þriðjudags og miðvikudags frá kl 21 til 06,“ segir í tilkynningunni.

Þrenging í Norðurárdal

Í tilkynningu frá lögreglu segir að vakin sé athygli á að þrenging sé á veginum á Vesturlandsvegi  Norðurárdal við Bjarnadalsá, akreinin til suðurs er lokuð vegna þrengingar. Búið er að merkja vel við þrenginguna á veginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×