Fréttastofa Stöðvar 2 sagði fyrst frá málinu en Chaplas sakar lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um alvarlegt ofbeldi. Var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild eftir dvöl í fangageymslu lögreglunnar eftir að lögreglumaður hafði veitt honum djúpan skurð á fæti með eggvopni inni í fangaklefa.
Sjá einnig: Segir lögregluna hafa beitt sig harkalegu ofbeldi
„Umrætt mál er til rannsóknar hjá embættinu,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, en lögmaður Chaplas óskaði eftir því við ríkissaksóknara að opinber rannsókn færi fram á þessu atviki. Ríkissaksóknari óskaði í kjölfarið eftir aðstoðar embættis sérstaks saksóknar við rannsóknina en ekki fengust frekari upplýsingar frá sérstökum saksóknara um framgang rannsóknarinnar.

Aðdragandi atviksins er sá að síðla kvölds 10. september síðaliðinn var Chaplas að týna dósir í miðborg Reykjavíkur þegar lögreglan stöðvar hann og sagðist þurfa að afhenda honum bréf frá Útlendingastofnun þess efnis að hann hefði dvalið í landinu ólöglega í um sjö mánaða skeið og við því yrði að bregðast. Var honum tjáð að um formsatriði væri að ræða sem tæki ekki nema nokkrar mínútur að afgreiða. Menka samþykkti að fara með lögregluna á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem honum var tilkynnt eftir skamma dvöl að hann væri handtekinn.
Chaplas fékk ekki að vita ástæðu handtökunar og vildi Hörður Jóhannesson ekki upplýsa í samtali við Vísi í september síðastliðnum hvers vegna Chaplas var handtekinn.