Innlent

Forsætisráðherra þvertekur fyrir hugmyndafræðilegt tómarúm í utanríkismálum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir fjarveru forsætisráðherra í samstöðugöngu leiðtoga í París dæmi um að ríkisstjórnin „svífi í tómarúmi“ í utanríkismálum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafnar því að ríkisstjórnin sé stefnulaus og leiðist „hverjir voru hvar“ umræðan.

Hættulegir veikleikar í utanríkisstefnu

Þorsteinn segir að það hafi verið tímamót í stjórnarsáttmálum að hvorki sé minnst á aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu né þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, bæði þessi samtök hafi verið grundvöllurinn af pólitískri og efnahagslegri samvinnu okkar. Í staðinn sé talað um meiri samvinnu við nýmarkaðsríki eins og Rússland og Kína. Þegar Rússland hafi ráðist inn í Úkraínu hafi menn hætt að tala um þessa nýju línu í utanríkismálunum.

„Fyrir vikið virðist mér sem ríkisstjórnin átti sig ekki á því hvert hún er að stefna í utanríkismálum eða hvernig hún ætlar að koma ár sinni fyrir borð á alþjóðlegum vettvangi, nema að hún kjósi að segja ekki frá því,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir í grein á Eyjunni að sú persónulega gagnrýni sem forsætisráðherra hafi sætt fyrir að hafa ekki tekið þátt samstöðugöngunni í París um síðustu helgi sé um sumt ómakleg. Ákvörðun hans varpi á hinn bóginn ljósi á hættulega veikleika í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar.

Sjá einnig: Fjarvera í París vandræðaleg segir fyrrverandi sendiherra Dana

Umræðan áhyggjuefni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir þetta lýsandi fyrir hvernig menn bregðist oft við stórum atburðum. Þarna komi saman nokkrir stjórnmálamenn og embættismenn , ekki sem þátttakendur í þessari stóru götu heldur í hliðargötu og láti taka af sér mynd þar og ekki nema gott um það að segja.

„Það að umræðan skuli snúast svona mikið um, hverjir voru hvar og hverjir voru og hverjir voru klæddir svona eða hinsegin, en ekki um stóru spurningarnar eins og tjáningarfrelsið, það finnst mér áhyggjuefni,“ segir Sigmundur.

Hann þvertekur fyrir að ríkisstjórnin sé í hugmyndafræðilegu tómarúmi. Það sé ekki hægt að halda því fram að ríkisstjórnin sé ekki með afdráttarlausa framtíðarsýn í utanríkismálum eins og öðru. Þorsteinn Pálsson sé hinsvegar á allt annarri línu en ríkisstjórnin í mörgum málum og honum finnist það kannski vera tómarúm ef menn séu á annarri skoðun.


Tengdar fréttir

Segja skýringar ráðherrans slappar og lélegar

Ísland er eina landið í Vestur-Evrópu sem sendi engan ráðamann í samstöðugönguna í París. Þingmenn stjórnarandstöðu segja yfirlýsingar forsætisráðherra sem ber fyrir sig skamman fyrirvara, ferðatíma og dagskrá ekki halda vatni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×