Innlent

Gosinu lýkur í byrjun mars, samkvæmt reikniformúlu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur. Myndin var tekin við hraunfoss af Fimmvörðuhálsi í mars 2010.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur. Myndin var tekin við hraunfoss af Fimmvörðuhálsi í mars 2010. vísir/anton brink
Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur í Stykkishólmi, hefur ítrekað spá sína um að eldgosinu í Holuhrauni ljúki í byrjun marsmánaðar næstkomandi. Spána byggir hann á reiknijöfnu sem hann hefur sett fram um sigið í öskju Bárðarbungu. Samkvæmt henni lýkur siginu í byrjun marsmánaðar, þá komist þrýstingur í kvikuþrónni í jafnvægi og þá sé líklegt að gosinu ljúki.

„Eins og ég hef fjallað hér um áður, þá er sigið á 800 metra þykku íshellunni, sem fyllir öskju Bárðarbungu, bein afleiðing af rennsli kviku út úr kvikuþrónni og inn í kvikugang, sem nær meir en 50 km til norðurs. Þar kemur kvikan loks upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldstöðin sem er að gjósa er Bárðarbunga, þótt athyglin hafi mest beinst að virkninni á yfirborði í Holuhrauni,“ segir Haraldur í eldfjallabloggi sínu.

Jafnan sem Haraldur birtir með spá sinni um goslok.Kort Haraldur Sigurðsson.
Haraldur birtir línurit sem sýnir að sig Bárðarbungu hefur verið ótrúlega reglulegt frá upphafi. 

„Jafnan sem fylgir línuritinu sýnir að það sé mjög nærri því að vera hrein lína, með R2 = 0,99968. Það gerist ekki betra í náttúrunni.“ 

Samkvæmt jöfnunni verður línan orðin lárétt eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust , sem var 12. september 2014. Þá hætti sigið í Bárðarbungu, eða í byrjun marsmánaðar 2015, spáir Haraldur. 

„Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu punktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars,“ segir Haraldur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×