Enski boltinn

United tókst ekki að vinna fyrsta leik ársins | Sjáið mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Shawcross fagnar marki sínu.
Ryan Shawcross fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Stoke City og Manchester United gerðu 1-1 jafntefli í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar á nýju ári en liðin mættust á Britannia Stadium í fyrsta leik dagsins af tíu.

Stoke fékk sannkallaða draumabyrjun þegar fyrirliðinn Ryan Shawcross skoraði eftir 106 sekúndur en Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao jafnaði metin í fyrri hálfleik og þannig urðu lokatölurnar.

Þetta var annar jafnteflisleikur Manchester United í röð í ensku úrvalsdeildinni (0-0 á móti Tottenham) og sá þriðji í röð á útivelli en liðið hefur nú leikið tíu deildarleiki í röð án þess að tapa.

Manchester United var miklu meira með boltann í leiknum en Stoke tókst engu að síðustu að skapa sér fín færi til að skora fleiri mörk og Marko Arnautovic átti meðal annars stangarskot í seinni hálfleiknum.

Bæði mörk leiksins komu eftir föst leikatriði. Ryan Shawcross skoraði fyrra mark leiksins úr markteignum á 2. mínútu eftir skalla Peter Crouch. og horn Arnautovic. Radamel Falcao jafnaði metin á 26. mínútu eftir að Michael Carrick framlengdi hornspyrnu Wayne Rooney til hans.

Þetta voru líklega sanngjörn úrslit en leikmenn liðanna þurftu að glíma við mikinn vind sem gerði þeim greinilega erfitt fyrir á Britannia-leikvanginum.

Ryan Shawcross kom Stoke yfir eftir aðeins 106 sekúndur: Radamel Falcao jafnaði leikinn eftir 26 mínútna leik.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×