Enski boltinn

Lampard tryggði City sigur á Sunderland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard fagnar sigurmarki sínu.
Frank Lampard fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Frank Lampard kom inná sem varamaður og tryggði Manchester City 3-2 sigur á Sunderland í fyrsta leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á nýju ári. Manchester City náði Chelsea að stigum en Chelsea-liðið á leik inni seinna í kvöld.

Eftir steindauðan fyrri hálfleik fór allt að gerast í þeim síðari og lið Manchester City var bæði búið að komast 2-0 yfir og missa niður tveggja marka forystu þegar Frank Lampard skoraði sigurmarkið.

Yaya Touré kom Manchester City í 1-0 á 57. mínútu eftir sendingu Stevan Jovetic sem síðan kom City-liðinu í 2-0 níu mínútum síðar. Jack Rodwell minnkaði muninn í 2-1 á 69. mínútu eftir sendingu Adam Johnson.

Adam Johnson jafnaði síðan metin úr vítaspyrnu á 72. mínútu eftir að Pablo Zabaleta felldi Billy Jones.  Skömmu áður hafði Jesús Navas skotið í stöng.

Frank Lampard kom inná sem varamaður skömmu áður en  Sunderland fékk vítaspyrnuna. Hann skoraði síðan sigurmarkið tveimur mínútum síðar eftir að hafa fengið sendingu frá Gael Clichy.

Lampard tryggði ekki aðeins City þrjú stig heldur komst hann einnig upp fyrir Thierry Henry á listanum yfir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×