Fótbolti

Enginn Aron og engin stig hjá AZ - De Jong með þrennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson. Vísir/Getty
Aron Jóhannsson gat ekki spilað með AZ Alkmaar í kvöld þegar liðið tapaði 4-2 á heimavelli á móti toppliði PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

PSV Eindhoven hefur þar með fimmtán stiga forskot á Ajax á toppi deildarinnar en Kolbeinn Sigþórsson og félagar eiga leik inni sem fram fer um helgina.

Luuk de Jong skoraði þrennu fyrir PSV í kvöld, fyrstu tvö mörk leiksins á 3. og 8. mínútu og svo fjórða og síðasta mark PSV á 60. mínútu. Georginio Wijnaldum skoraði þriðja marki PSC tveimur mínútum fyrr.

PSV komst í 2-0 en AZ jafnaði metin með tveimur mörkum á níu mínútuna kafla í kringum hálfleikinn. Markus Henriksen og Robert Mühren skoruðu mörk AZ.

Þetta er annar leikurinn í röð sem Aron Jóhannsson missir af hjá AZ en liðið vann 4-2 sigur á Groningen um síðustu helgi.

Aron skoraði í tveimur síðustu deildarleikjum sínum fyrir meiðslin en hann hefur skorað 4 mörk í 11 deildarleikjum á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×