„Þetta er ansi blandað prógramm,“ segir Kristín R. Sigurðardóttir, ein söngkvennanna í Boudoir, spurð um efnisskrá tónleikanna í Fella- og Hólakirkju á sunnudaginn. „Svona rjóminn af því sem við höfum verið að æfa í vetur. Við erum flestar einsöngvarar og tökum hver um sig eitt lag. Þau eru úr ýmsum áttum; úr söngleikjum, óperettum, óperum, eða jafnvel bara dægurlög. Kórlögin eru síðan alls konar skemmtilegar útsetningar á þekktum lögum og nokkrar þeirra eru eftir stjórnandann okkar, Julian Hewlett, auk þess sem við syngjum fimm lög eftir hann sjálfan.“
Kvennasönghópurinn Boudoir var stofnaður í haust sem leið af faglærðum söngkonum og konum sem einnig eru starfandi sem einsöngvarar. Spurð hvort það geti ekki verið erfitt að hafa svona margar dívur í einum kór fer Kristín að hlæja. „Þetta hefur verið ótrúlega gaman,“ segir hún. „Það eru náttúrulega sterkir karakterar í hópnum, en það gerir þetta bara enn skemmtilegra.“
Tónleikarnir í Fella- og Hólakirkju hefjast klukkan 17 á sunnudaginn en á morgun verður smáupphitun á Hlemmur Square þar sem flutt verða nokkur lög úr efnisskránni.
Stjórnandi kórsins er Julian Hewlett og Judith Thorbergsson leikur með á píanó.
Sterkir karakterar í dívuhópnum
