Jared Leto, sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki í myndinni Dallas Buyers Club á sunnudaginn, sagði frá því í viðtali við Entertainment Tonight, í Kanada, að hann væri búinn að skemma styttuna sína.
„Ég var að leyfa samstarfsfélögum mínum að taka mynd af sér með styttuna og ég hélt á henni niður stiga og negldi henni í handriðið og það kom dæld í bakið á henni,“ sagði Leto í viðtalinu.
„Svona er þetta bara. Hún er orðin... Lifuð,“ sagði Leto, og lét skemmdirnar ekki á sig fá. „Styttan er núna inn í eldhúsi hjá mér, og er vernduð af vegan smjöri og poka af poppi,“ bætti hann við.
„Þið vitið, stytturnar enda alltaf í eldhúsinu vegna þess að þangað fer ég fyrst þegar ég kem heim. Læt frá mér lyklana, fer úr jakkanum.... og set Óskarsstyttuna í eldhúsið.“
