Innlent

Vilhjálmur Hjálmarsson látinn

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Vilhjálmur Hjálmarsson. Myndin er tekin á Brekku síðastliðinn föstudag.
Vilhjálmur Hjálmarsson. Myndin er tekin á Brekku síðastliðinn föstudag. MYND/GUÐJÓN HALLDÓRSSON
Vilhjálmur Hjálmarsson, bóndi, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður og ráðherra, lést á Brekku í Mjóafirði í gær á sínu hundraðasta aldursári.

Vilhjálmur stundaði búskap í um 30 ár, kenndi við barnaskólann í Mjóafirði og sinnti auk þess ýmiss konar félagsmálastörfum. Hann sat lengi á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn, fyrst árið 1949, og gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1974-1978.

Eftir að hann fór af þingi hóf hann ritstörf og gaf út fjölda bóka. Þann 20. september næstkomandi kemur út bók hans „Örnefni í Mjóafirði“ en hann hefði orðið hundrað ára þann dag.

Af þessu tilefni sló Fréttablaðið á þráðinn til Vilhjálms síðastliðinn föstudag en hann var ern til dánardags.

„Þetta er reyndar smá svindl því handritið var til,“ sagði Vilhjálmur þegar blaðamaður hrósaði honum fyrir framtakssemina. Og ekki vantaði gamansemina þegar rætt var um ritstörf hans. „Ég hef alla tíð skrifað mikið. Ég skrifaði til dæmis allar mínar ræður þegar ég var ráðherra, mér fannst það líka betra að vita hvað ég hafði sagt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×