Innlent

„Það var alltaf tilefni til að borða“

Birta Björnsdóttir skrifar
Í fréttum Stöðvar 2 í gær fjölluðum við um matarfíkn og baráttu hóps fólks fyrir því að fíknin verði skilgreind sem sjúkdómur hér á landi. Ein þeirra sem þekkir baráttu og bata matarfíkilsins af eigin raun er Agnes Þóra Guðmundsdóttir.

„Ég er matarfíkill og er búin að vera það alla ævi líklega, sama hvort það sé áunnið eða meðfætt. Fyrstu matarminningarnar á ég síðan ég var bara lítið barn þegar þegar ég var að reyna að fá meira af kolvetnaríkum mat, mat sem innihélt sykur og sterkju og þessi efni sem ég reyni að forðast í dag,“ segir Agnes.

„Ég missti tökin um tvítugt eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn. Þá þyngdist ég um einhver tuttugu og fjögur kíló sem ég náði ekki af mér fyrr en ég fór í fráhald frá þeim matartegundum sem ég borða ekki, fyrir 10 árum síðan. Þess á milli var ég alltaf í allskonar aðhaldi, líkamsrækt og megrunarkúrum, sem virkuðu aldrei fyrir mig.“

Agnes segir lífið allt hafa snúist um mat.

„Þetta var í raun bara ein stór máltíð allan daginn. Máltíðin byrjaði á morgnanna og lauk ekki fyrr en ég lognaðist útaf í sófanum heima á kvöldin.“

Og lífið snérist ekki eingöngu um að innbyrða mat, heldur glímdi Agnes við stanslausar hugsanir um mat.

„Þær ganga út á það að finna ástæður fyrir því að verðlauna sig með mat, til dæmis ef ég hafði farið út að ganga eða í ræktina. Eða þá að mér þótti gærdagurinn hafa gengið svo illa, að ég væri hvort sem er í vondum málum og gæti því alveg eins haldið áfram að borða. Það var því alveg sama hvernig líðanin var, það var alltaf tilefni til að borða,“ segir Agnes.

„Ég var alltaf að búa til einhverja hittinga og veislur til að hægt væri verið að borða. Ég var í því að búa til saumaklúbba til að borða og stjórna því að aðrir væru að borða með mér. Finna mér átfélaga.“

Agnes segist hafa upplifað létti þegar á endanum hún var greind með matarfíkn, þá hafi hún fengið réttu verkfærin til að leita sér bata.

„Þetta var ekki mér að kenna. Það fylgdi því mikill feginleiki því þá gat ég farið að leita mér lækninga við sjúkdómnum.“

Bati Agnesar hefur nú staðið yfir í tíu ár, en hann fólst í upphafi í fráhaldi frá þeim matartegundum sem valda því að hún getur ekki hætt að borða.

„Ég vigta og mæli matinn minn því ég hef ekki þessa stjórn á matnum mínum og margir hafa. Ég verð að hafa einhvern ramma og eitthvað utanumhald,“ sagði Agnes.

„Svo fór bara lífið að gerast. Þetta er nefnilega sjúkdómur sem herjar bæði líkamlega en ekki síður andlega. Þessi þráhyggja sem er í huganum sést ekki utanfrá.“

En matarfíkn snýst ekki eingöngu um kílóafjölda, fólk getur þjáðst af matarfíkn án þess að vera í yfirþyngd.

„Fólk getur alveg verið með þessa þráhyggju gagnvart mat en verið grannt. Það á kannski ekki síst við sykurfíkla, sem innbyrða nær eingöngu sykraðan mat.“

Agnes segist vissulega hafa orðið vör við fordóma gegn matarfíkn sinni.

„Mörgum finnst að auðvitað eigi maður að geta stjórnað sínum matarvenjum, en það er bara ekki þannig. Það geta ekki allir stjórnað því,“ segir Agnes, sem lítur björtum augum til framtíðar.

„Maður gengur í gegnum allt í lífinu en ég þarf ekki lengur að borða þó ég sé að ganga í gegnum þetta allt saman. Ég horfist bara í augu við lífið núna, án þess að þurfa að deyfa mig með mat.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×