Enski boltinn

Gylfi skorar á móti sigursælu klúbbunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frábær frammistaða Gylfi Þór Sigurðsson.
Frábær frammistaða Gylfi Þór Sigurðsson. Fréttablaðið/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði tímabilið á því að skora á Old Trafford í Manchester og hann endaði árið 2014 á því að skora á Anfield í Liverpool. Gylfi skoraði tvö síðustu mörk Swansea á árinu 2014 og hefur þar með komið að 12 af 24 mörkum liðsins í fyrri hluta ensku úrvalsdeildarinnar.

Gylfi hefur skorað fimm mörk í öllum keppnum á þessu tímabili og það vekur vissulega athygli að þau hafa komið í leikjum á móti sigursælustu klúbbunum í efstu deild á Englandi.

Gylfi hefur skoraði í deildinni á móti Manchester United (20 sinnum enskur meistari), Liverpool (18 sinnum meistari), Arsenal (13 sinnum meistari) og Aston Villa (7 sinnum meistari) en hann skoraði einnig í deildabikarnum á móti Everton (9 sinnum meistari).

Frammistaða Gylfa hefur vakið mikla athygli og Jamie Carragher, sérfræðingur á Sky Sports, segir að Gylfi sé sá leikmaður sem hafi bætt sig mest frá síðasta tímabili.

„Hann hefur verið frábær. Við höfum rætt mikið um samband Cesc Fabregas og Diego Costa en það sama á við um hann og Wilfried Bony. Aðeins Fabregas hefur gefið fleiri stoðsendingar en hann á tímabilinu en Gylfi skorar líka mörk, eins og við sáum gegn Liverpool. Þetta gekk ekki alveg upp hjá honum hjá Tottenham en hann er alvöru,“ sagði Jamie Carragher en Gary Neville var á því að Tottenham-maðurinn Harry Kane hefði bætt sig mest.

Gylfi Þór hefur þegar bætt sinn besta árangur á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni þótt tímabilið sé bara hálfnað. Gylfi hafði mest áður komið með beinum hætti að tíu mörkum á einni leiktíð í ensku úrvalsdeildinni. Gylfi er jafnframt búinn að fjórfalda sinn besta árangur fyrir jól því íslenski landsliðsmaðurinn hafði mest áður komið að þremur mörkum fyrir áramót sem var á tímabilinu í fyrra.

Fyrir þetta tímabil var Gylfi samtals með 3 mörk og 2 stoðsendingar í 32 leikjum fyrir áramót en hann var kominn í þá tölu strax í þriðja leik sínum með Swansea á þessu tímabili.

Gylfi verður aftur í sviðsljósinu á nýársdag þegar Swansea heimsækir QPR á Loftus Road. Heil umferð fer að venju fram á fyrsta degi nýs árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×