Erlent

Fjórir látnir eftir jarðskjálfta í höfuðborg Ekvadors

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þriggja er enn saknað.
Þriggja er enn saknað. Vísir/AFP
Fjórir eru látnir eftir að jarðskjálfti skók höfuðborg Ekvador, Quito, í gær og talið er að átta hafi slasast í aurskriðu sem féll í kjölfar skjálftans. Björgunarsveitir vinna nú að því að bjarga fólki úr húsarústum en þriggja er enn saknað.

Skjálftinn var af stærðinni 5.1 sem Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna hefur lýst sem „miðlungsstórum“.

„Augljóst er að jarðskjálftinn olli aurskriðunni, en ákveðinn veikleiki var þó til staðar í fjallinu eftir ólöglega námastarfsemi og grjótnámur sem hagnýttar voru með ótilhlýðlegum hætti,“ sagði forseti Ekvador, Rafael Correa, í samtali við þarlenda fjölmiðla.

Borgarstjóri Quito tilkynnti fjölmiðlamönnum að einn þeirra sem lét lífið í skjálftanum hafi verið fjögurra ára strákur sem varð undir hrísgrjónasekkjum.

Aðalflugvelli borgarinnar var lokað í kjölfar skjálftans til að meta hugsanlegar skemmdir á innviðum vallarins en hann hefur nú verið opnaður aftur. Skjálftinn fannst vel í höfuðborginni og þustu skrifstofustarfsmenn út á götur borgarinnar þegar þeir urðu hans varir. Bílaumferð var lengi í lamasessi eftir titringinn.

Alls búa um 1.6 milljón manns í Quinto en skjálftin átti upptök sín á um 7.7 kílómetra dýpi, rúma 22 kílómetra norðaustur af höfuðborginni.

Jarðskjálftar eru tíðir í Ekvador en landið er í hinum svokallað Eldhring sem umlykur Kyrrahafsflekann. Eldhringurinn er í raun hálfhringur, 40.000 km langur, þar sem 90 prósent af öllum jarðskjálftum heims og 81% af stærstu jarðskjálftum heims eiga sér stað.

Skrifstofufólk þusti út á götur Quito er það fann skjálftann.Vísir/AFP
Hér að neðan má sjá myndbönd frá vettvangi hamfaranna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×