Boðað hefur verið til mótmæla við lögreglustöðina á Ísafirði á laugardag vegna aðgerða lögreglu við handtöku manns 17. nóvember síðastliðinn. Lögreglan á Vestfjörðum sendi í gær frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem kemur fram að hún telji aðgerðir hafa verið réttmætar miðað við aðstæður. Maðurinn handleggs- og fingurbrotnaði við handtökuna. Lögreglan var kölluð að húsi á Ísafirði aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember vegna manns í sjálfvígshugleiðingum.
Maðurinn var vopnaður hnífi og samkvæmt tilkynningu lögreglu bæði hótaði maðurinn og reyndi ítrekað að veita lögreglumönnum áverka með hnífnum. Þeir hafi reynt að fá manninn til þess að leggja frá sér hnífinn en þegar það hafi ekki borið árangur þá hafi kylfu og varnarúða verið beitt. Þegar það hafi ekki borið tilætlaðan árangur vopnuðust lögreglumenn, settu á sig varnarbúnað og skammbyssur í slíður.
Maðurinn var í framhaldi handtekinn, færður á lögreglustöð og vakthafandi læknir kallaður til. Í tilkynningu lögreglu kemur fram að í aðgerð lögreglu hafi vopnum ekki verið beitt.
Boðað hefur verið til mótmælanna á Facebook og hafa um fimmtíu manns boðað komu sína á þau. Þar kemur fram að aðgerðum lögreglu sé harðlega mótmælt.
Mótmæla aðgerðum lögreglu

Tengdar fréttir

Lögreglan á Ísafirði greip til skotvopna
Maðurinn sem var í sjálfsvígshugleiðingum ógnaði lögreglunni með hnífi.

Lögreglumenn kærðir til ríkissaksóknara
Lögreglan biður fólk um að sýna skilning.