Innlent

Hænuskref áfram í Kópavogi

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Skólastarf gæti gengið úr skorðum í verkfalli bæjarstarfsmanna í Kópavogi.
Skólastarf gæti gengið úr skorðum í verkfalli bæjarstarfsmanna í Kópavogi. vísir/Vilhelm
„Þetta hefur þokast lítið hænuskref áfram en ég get ekki upplýst í hverju það felst,“ sagði Jófríður Hanna Sigmundsdóttir, formaður Starfsmannafélags Kópavogs, í kvöld.

Fulltrúar bæjarstjórnar og bæjarstarfsmanna funda enn til að reyna afstýra verkfalli bæjarstarfsmanna sem að óbreyttu hefst klukkan sex í fyrramálið.

„Ég er nokkuð bjartsýnn á að samningar náist. Við höfum lagt fram tillögu og bíðum viðbragða,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs. Samkvæmt henni eiga kjör þeirra lægst launuðu að hækka og nefndi hann í því samhengi ófaglærða leikskólastarfsmenn.

Tæplega 800 manns eru tilbúnir að leggja niður störf.

Ljóst er að ýmis þjónusta mun skerðast verði af verkfalli. Til að mynda mun skólastarf raskast í bæði leik- og grunnskólum. Að auki verður ekki boðið upp á frístundavist að skóla loknum. Félagsmiðstöðin í Boðaþingi verður eina félagsmiðstöðin sem verður opin.

Allar sundlaugar munu loka sem og þjónustuver bæjarins og Gerðarsafn. Félagsstarf eldri borgara verður af skornum skammti á meðan á verkfalli stendur og sömu sögu er hægt að segja um aðstoð fyrir fatlaða.


Tengdar fréttir

Tilboð til lausnar kjaradeilu í Kópavogi

Bæjarstjórinn í Kópavogi, Ármann Kr. Ólafsson, hefur óskað eftir því að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. Kópavogsbæjar leggi fram tilboð til lausnar kjaradeilu við Starfsmannafélag Kópavogsbæjar.

Segir bæjarstjórann vera í pólitísku stríði

"Við munum lama samfélagið,“ segir Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður Starfsmannafélags Kópavogs, en boðað verkfall félagsins hefst að óbreyttu á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×