Hópur þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi hefur lagt fram þingsályktunartillögu um áhættumat vegna ferðamennsku á Íslandi.
Í framhaldi áhættumatsins verði metið hvort ástæða er til að setja sérstakar reglur um ferðir á þau svæði á Íslandi sem helst er áhættusamt að heimsækja.
Þingsályktunartillagan var lögð fram á síðasta þingi, og þá einnig af þingmönnum allra flokka. Hún fór svo langt að fá umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd sem sendi út umsagnarbeiðnir vegna hennar. Þær gáfu til kynna að úrlausnar þessarar hugmyndar yrði ekki beðið mikið lengur.
Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að markmiðið sé að fækka slysum og óhöppum ferðamanna í óbyggðum og utan alfaraleiðar. Með því yrði fækkað þjáningum einstaklinga og kostnaði samfélagsins vegna leitar- og björgunarstarfa.
Sérstaklega er þetta talið brýnt í ljósi fjölgunar ferðamanna og hve mikið hefur teygst úr ferðamannatímanum yfir á haust og vetur.
Vilja ferðamennsku í hættumat
Svavar Hávarðsson skrifar
