Innlent

Starfsemin riðlast öll í verkfalli

Svavar Hávarðsson skrifar
Verkfall á kvenna- og barnasviði auk heilsugæslu mun auka álag á bráðadeildir.
Verkfall á kvenna- og barnasviði auk heilsugæslu mun auka álag á bráðadeildir. Fréttablaðið/Pjetur
Þróun kjaradeilu ríkisins og Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands hefur orðið þess valdandi að læknar hyggjast ganga ákveðið fram í verkfallsaðgerðum sínum.

Þeir munu sinna alvarlegustu tilfellum sem koma upp en þar draga þeir línuna, segja heimildir Fréttablaðsins innan Landspítalans.

Ekkert bendir til annars en verkfall lækna hefjist á mánudag, enda hefur næsti fundur í kjaradeilu þeirra ekki verið boðaður fyrr en að kvöldi sama dags.

Vegna verkfallsins hafa starfsmenn Landspítalans unnið hörðum höndum að viðbúnaði, en um nýjan raunveruleika lækna og heilbrigðisstofnana er að ræða þar sem læknar hafa aldrei áður nýtt verkfallsrétt sinn.

Félögin tvö deila verkfallsaðgerðum niður á stofnanirnar. Helsti viðbúnaðurinn felst í að gera svokallaðan undanþágulista, sem snýr að því að í húsi séu læknar á hverjum tíma til að sinna bráðatilfellum.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins innan Landspítalans mun starfsemin raskast verulega.

Á mánudaginn eru það rannsóknasvið og kvenna- og barnasvið þar sem lögð verða niður störf; á öðrum sviðum verður starfað áfram en þó undir miklum áhrifum frá verkfallinu, þar sem starfsemi eins sviðs snertir óumflýjanlega önnur, t.d. rannsóknasviðs.

Allar verkfallsaðgerðir sem skipulagðar eru næstu vikurnar hafa þessi ruðningsáhrif.

Skurðlæknafélagið hefur sínar aðgerðir 4. nóvember með allsherjarverkfalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×