Menning

Undirmeðvitundin átti erindi við Hildi

Valgerður Þ. Jónsdóttir skrifar
Hildi Guðnadóttur dreymdi tónverkið Undir tekur yfir í formi teikningar.
Hildi Guðnadóttur dreymdi tónverkið Undir tekur yfir í formi teikningar. MYND/ANTJE TAIGA JANDRIG

„Sumarið 2012 varð ég fyrir þeirri lífsreynslu að missa meðvitund. Ég missti reyndar ekki neitt, því það sem gerðist í rauninni var að það urðu eins konar meðvitundarskipti og undirmeðvitundin tók völdin af þeirri vitund sem yfirleitt ræður ferðinni.“

Þannig m.a. lýsir Hildur Guðnadóttir, sellóleikari, tónskáld og söngkona, innblæstri sínum að tónverkinu Undir tekur yfir, sem tilnefnt er til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2014.

Í gærmorgun missti Hildur af flugi frá Kraká til Berlínar. Strandaglópurinn gaf sér stund til að segja svolítið nánar frá tilurð verksins og því helsta sem er á döfinni. „Ég er alltaf á ferð og flugi, spila úti um allan heim og hef verið svo heppin að fá næg verkefni upp í hendurnar. Undanfarið hef ég samið tónlist fyrir kvikmyndir, leikhús og unnið við að setja upp tónlistarviðburði. Einn slíkur er í lok mánaðarins í Neue Nationalgallerie í Berlín, sem er innsetning með nýju hljóðfæri sem Hans Jóhannesson er að smíða fyrir mig,“ segir hún.

„Annars spila ég aðallega á tónleikum, sóló á selló, en þó einstaka sinnum með öðrum, t.d. múm. Ég spila mest víðsvegar um Evrópu, en þó í æ ríkari mæli í Bandaríkjunum þar sem ég verð með tvenna einleikstónleika í Metrópólitan í New York n.k. föstudag og mánudag. Því næst í Tókýó í nóvember,“ segir Hildur og gæti haldið þulunni áfram.

Hún stundaði nám í Listaháskólanum í Berlín og settist að í borginni árið 2007. Þótt tilnefningar, viðurkenningar og verðlaun séu engin nýlunda fyrir Hildi, segir hún hafa komið sér á óvart að vera tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

„Undir tekur yfir er fyrsta verk mitt fyrir sinfóníuhljómsveit. Stuttu áður en ég varð fyrir þeirri lífsreynslu að missa meðvitund hafði Ilan Volkov, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og listrænn stjórnandi Tectonics-hátíðarinnar, haft samband við mig og beðið mig að skrifa tónverk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þegar mig síðan dreymdi verkið í formi teikningar fannst mér undirmeðvitundin eiga við mig erindi. Ég teiknaði það sem mig dreymdi og byggði tónverkið á teikningunni,“ segir Hildur, en mælir ekkert sérstaklega með að missa meðvitund.

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verkið á Tectonics-hátíðinni í Hörpu í vor og kveðst tónlistarkonan ekki hafa átt von á að það ætti eftir að fara víða. „Tilnefningin gleður mig mikið, sérstaklega af því ég lagði gríðarlega mikla vinnu í verkið og það var mjög flókið í vinnslu,“ segir hún.

Eins og öðrum tilnefndum er henni boðið í ráðhúsið í Stokkhólmi 29. október nk. þar sem úrslitin verða kunngjörð. Frá Íslandi var einnig tilnefnt tónverkið Solar5: Journey to the Center of Sound eftir Huga Guðmundsson, Hilmar Jensson, Sverri Guðjónsson og Matthías Hemstock með gagnvirkum sjónlistaverkum eftir Joshue Ott.



Þrjár sólóplötur

Hildur hefur gefið út þrjár sólóplötur á vegum útgáfufyrirtækisins Touch: Leyfðu ljósinu, Without Sinking og Mount A og samið tónlist fyrir leikrit, dansverk, kvikmyndir, verk fyrir kammersveitir, alls kyns hljóðfærasamsetningar, raddir og rafhljóð.

Hún hefur samið tónlist að beiðni Konunglega sænska ballettsins, Tate Modern, Opera North og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hljómsveitin Múm, Skúli Sverrisson, Jóhann Jóhannsson, Angel, Pan Sonic, Schneider og Throbbing Gristle eru á meðal fjölmargra tónlistarmanna, sem hún hefur starfað með.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×