Innlent

Fimm ára með áhyggjur af líkamsmynd sinni

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
„Rannsóknir hafa einnig sýnt að feitir krakkar sem eru sáttir í eigin skinni þyngjast minna með árunum en þau sem eru óánægð með líkama sinn. Jákvæð líkamsmynd hefur verndandi áhrif á heilsu og velferð,“ segir Sigrún Daníelsdóttir.
„Rannsóknir hafa einnig sýnt að feitir krakkar sem eru sáttir í eigin skinni þyngjast minna með árunum en þau sem eru óánægð með líkama sinn. Jákvæð líkamsmynd hefur verndandi áhrif á heilsu og velferð,“ segir Sigrún Daníelsdóttir. VÍSIR/GVA
Dæmi eru um að stúlkur á leikskólaaldri hafi áhyggjur af líkamsmynd sinni. Þetta segir Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og höfundur bókarinnar Kroppurinn er kraftaverk – líkamsvirðing fyrir börn. „Ég varð vör við þetta þegar ég starfaði í átröskunarteymi hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Þar hafa unglingsstúlkur greint frá því að þær hafi byrjað að hafa áhyggjur af líkamsvexti sínum þegar þær voru í leikskóla. Hugsunarhátturinn verður til löngu áður en vandamálið verður öllum augljóst.“

Sigrún, sem hefur sérhæft sig í forvörnum og meðferð slæmrar líkamsmyndar og átraskana, segir afar mikilvægt að efla líkamsmynd og líkamsvirðingu meðal barna og ungmenna. „Þau þurfa að öðlast virðingu fyrir fjölbreytileika líkamsvaxtar og samband þeirra við mat þarf að vera heilbrigt. Þetta er ekki bara hlutverk foreldranna heldur samfélagsins alls. Áreitið úti í samfélaginu er gríðarlegt. Miðað er við ákveðnar staðalímyndir á gríðarlega mörgum sviðum. Það er ekki bara með auglýsingum fataframleiðenda sem skilaboðin um ákveðinn líkamsvöxt eru send út í samfélagið, heldur eru þau einnig send út með auglýsingum líkamsræktarstöðva með myndum af einstaklingum með staðlaðan líkamsvöxt. Þetta eru stöðvar sem gefa sig út fyrir að vilja stuðla að heilbrigði en auglýsingarnar einkennast oft af mikilli útlitsdýrkun ásamt kynferðislegum undirtóni. Slíkt ýtir undir samfélagslegar útlitsstaðalmyndir.“

Til þess að efla líkamsvirðingu meðal barna þurfa þau að læra að tala fallega um alla líkama, að því er Sigrún tekur fram. „Við þurfum að kenna þeim að fjölbreytileiki á sviði holdafars og útlits sé sjálfsagður, eðlilegur og skemmtilegur. Við erum ekki öll eins og eigum ekki að vera það.“

Sigrún segir að ekkert bendi til þess að jákvætt viðhorf til líkamans stuðli að óheilbrigði, hvorki meðal grannra né feitra. Þvert á móti sýni langtímarannsóknir að ungmenni sem hafa jákvæða líkamsmynd, óháð líkamsvexti, séu líklegri til að tileinka sér heilbrigðar lífsvenjur en þau sem eru óánægð með líkama sinn. „Rannsóknir hafa einnig sýnt að feitir krakkar sem eru sáttir í eigin skinni þyngjast minna með árunum en þau sem eru óánægð með líkama sinn. Jákvæð líkamsmynd hefur verndandi áhrif á heilsu og velferð.“

Nokkur ráð af vefnum likamsvirdingfyrirborn.is:

1
Kenndu barninu þínu að fjölbreytileiki í líkamsvexti sé eðlilegur. Alveg eins og við erum mismunandi á litinn, höfum ólíkt andlitsfall, hárlit og augnlit, þá erum við líka mismunandi í laginu. Þetta er sjálfsögð staðreynd sem allir ættu að virða.

2 Fræddu barnið um óraunhæf útlitsviðmið í samfélaginu og hvernig þau birtast, t.d. í fjölmiðlum, barnaefni og leikföngum.

3 Ef þú hefur áhyggjur af lífsvenjum barnsins þíns skaltu beina sjónum að hegðun þess en ekki holdafari. Skapaðu umhverfi þar sem barnið fær næg tækifæri til að borða hollan mat og hreyfa sig sér til ánægju. Hvorki þú né barnið ættuð að líta á heilbrigðar lífsvenjur sem grenningaraðferð, heldur eitthvað sem allir þurfa að gera til þess að halda heilsu og líða vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×