Innlent

Vantar úrræði fyrir karla og konur sem beita ofbeldi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Talið er að um helmingur allra ofbeldismála sé tilkynntur til lögreglu. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tæplega 800 tilkynningar í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Talið er að um helmingur allra ofbeldismála sé tilkynntur til lögreglu. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tæplega 800 tilkynningar í fyrra. Fréttablaðið/Vilhelm
Engin samræmd stefna er til um hvernig eigi að bregðast við ofbeldismálum hér á landi. Engin samræmd tölfræði er til um fjölda ofbeldisverka. Engar eða fáar nýjar rannsóknir á ofbeldisverkum eru til. Það skortir því alla yfirsýn í málaflokknum.

Tæplega átta hundruð ofbeldisbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Erlendar rannsóknir sýna þó að lögreglan fær aðeins tilkynningar um helming þeirra ofbeldisbrota sem eru framin.

Það eru ellefu mismunandi aðilar sem sinna þjónustu við þolendur ofbeldis. Fimm af þessum ellefu hjálparsamtökum eru rekin af félagasamtökum, önnur þjónusta er á forræði ríkis og sveitarfélaga. Af þessum ellefu eru ein samtök sem eru með úrræði fyrir þá sem beita ofbeldi.

Vilhjálmur ÁRnason
Þarf að einfalda kerfið

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir breytinga þörf.

„Kerfið er of flókið og það er mikilvægt að vinna að því að einfalda það,“ segir ráðherra og það eru fleiri sem taka undir það. „Þetta snýst um að menn vinni betur saman. Það þarf að einfalda kerfið og skýra betur hver eigi að sinna hverju og hvenær,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Enginn veit hversu mörg ofbeldismál koma upp hér á landi á ári. Það er engin samræmd gagnaskráning til, hvorki hjá hinu opinbera né félagasamtökum.

Tölurnar eru þó til, að minnsta kosti yfir þá sem leita aðstoðar vegna ofbeldis. Til dæmis er hægt að finna tölur um heimilisofbeldismál hjá lögreglu, Kvennaathvarfi og víðar. Aðrir halda utan um tölur um kynferðisofbeldi, enn aðrir halda utan um tölur um ofbeldi gagnvart börnum og svo mætti halda áfram að telja.

Vilhjálmur segir skort á yfirsýn og verkferla og undir það tekur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar.

„Það vantar betri kortlagningu af vandanum og samþættingu,“ segir hún og bendir á að það skorti rannsóknir á eðli og umfangi ofbeldis hér á landi. „Það þarf nýjar rannsóknir og svo þarf að safna því talnaefni sem er til svo það verði auðveldara að greina vandann.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Vantar eftirlitsaðila

Vegna þess að menn vita ekki umfangið vita þeir heldur ekki hvort ríki og sveitarfélög veita nægu fé í málaflokkinn eða hvort peningarnir rata á rétta staði.

„Það vantar opinberan eftirlitsaðila með félagsþjónustu og barnavernd. Það hefur lengi legið fyrir að það þyrfti að búa til slíka stofnun,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Hún segir að samfélagið virðist gegnsýrt af ofbeldi og það sé nauðsynlegt að huga að báðum hliðum málsins, bæði þurfi úrræði fyrir þá sem verða fyrir ofbeldinu en ekki síður fyrir allan þann fjölda karla og kvenna sem beiti aðra ofbeldi. Þar virðist vera skortur á úrræðum.

„Ég held að það sé svolítið með höppum og glöppum hvaða þjónustu fólk fær sem lendir í ofbeldi,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, það fer svolítið eftir því hvert það leitar hvaða úrræði því er bent á. Hún bendir á að það séu margir sem átti sig ekki á hvaða áhrif bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi geti haft á líkamlega heilsu fólks. Það sé því verið að lækna líkamann en ekki sálarmeinin sem séu undirrót vandans.

Friðrik Smári Björgvinsson
Vilja veita sálfræðiaðstoð

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags heimilislækna, telur að heilsugæslan sinni ágætlega þörfum þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi en vill samt sem áður efla starfsemi heilsugæslustöðvanna á þessu sviði.

„Ég held að menn vanmeti þann þátt sem er svo gríðarlega mikilvægur í þessu samhengi en það er hið persónulega samband læknis og skjólstæðings hans,“ segir Þórarinn og bætir við að starfsfólk heilsugæslustöðvanna sé meðvitað um þann skaða sem ofbeldi geti unnið á heilsu fólks.

„Við vinnum náið með barnaverndarnefndum, félagsmálayfirvöldum og öðrum sem koma að ofbeldismálum. Fólki finnst oft auðveldara að koma inn á heilsugæslustöð þar sem það þekkir sig en leita til stærri opinberra aðila,“ segir hann og bætir við að það gæti hjálpað þolendum ofbeldis ef fólk gæti fengið almenna sálfræðiaðstoð á heilsugæslunni.

Lögreglan kemur eðli málsins samkvæmt að fjölda ofbeldismála. Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir að lögreglan hafi innanhússreglur um hvernig tekið er á slíkum málum. Það séu hins vegar engar samræmdar reglur sem hafi verið settar í samvinnu við félagsmálayfirvöld eða heilbrigðiskerfið. Friðrik telur að það væri mjög til bóta ef til væru samræmdar reglur um hvernig tekið er á ofbeldismálum og hver eigi að sinna hverju og hvenær.

En þó að það virðist brotakennt hvernig tekið er á ofbeldismálum á höfuðborgarsvæðinu þá er ástandið úti á landi enn verra. Víðast hvar er litla þjónustu að fá og þótt hún sé í boði veigra sér margir við að nota hana í nærsamfélaginu. Ástæðan er sú að ofbeldi er feimnismál hjá mörgum.

Sigþrúður Guðmundsdóttir
Erfið staða á landsbyggðinni

„Félagasamtök sem spruttu upp til að sinna þolendum heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis spruttu upp af mikilli þörf. Það var enginn opinber aðili sem var að sinna þessu,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir hjá Kvennaathvarfinu.

Hún segir athvarfinu ætlað að sinna konum á öllu landinu, en augljóslega sé erfiðara fyrir konur sem búa fjær að leita eftir aðstoðinni. Tvenn systrasamtök Stígamóta starfa á landsbyggðinni, á Akureyri og Ísafirði, auk þess sem boðið er upp á viðtöl á Egilsstöðum á tveggja vikna fresti. Þá starfa samtökin Karlar til ábyrgðar á Akureyri.

Enginn efast um að ofbeldi getur haft alvarlegar andlegar og líkamlegar afleiðingar hjá þeim sem verða fyrir því. Kostnaðurinn fyrir bæði einstaklinga og samfélagið getur orðið hár. Efla þarf forvarnir og auka fræðslu.

Stjórnvöld sinna þó þessum málaflokki ekki sem skyldi. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra ætlar að skipa nefnd sem á að endurskoða stjórnsýslu ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar. Tilgangurinn er að tryggja betur eftirlit, mat á öryggi og gæðum félagsþjónustu og barnaverndar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×