Innlent

Vilja Þorláksbúð burt frá Skálholtskirkju

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Í Fréttablaðinu í gær kom fram að Þorláksbúðarfélagið fær 11,3 milljónir úr sjóðum kirkjunnar til að gera upp skuld við smið verkefnisins.
Í Fréttablaðinu í gær kom fram að Þorláksbúðarfélagið fær 11,3 milljónir úr sjóðum kirkjunnar til að gera upp skuld við smið verkefnisins.
Minjastofnun Íslands vill að Þorláksbúð sem stendur við Skálholtskirkju verði tekin niður og flutt annað.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunarinnar, segir þó að hafi kirkjan tekið við búðinni og vilji hafa hana áfram á sama stað setji stofnunin sig ekki á móti því.

Kristín skrifaði pistil um Þorláksbúð á vef Minjastofnunar þann 17. desember síðastliðinn. Þar rak hún meðal annars að áður en Þorláksbúð var reist hafi verið rætt um að húsið yrði nýtt sem skrúðhús af þáverandi vígslubiskupi, Sigurði Sigurðssyni. Sigurður var einmitt einn forvígismanna Félags áhugamanna um uppbyggingu Þorláksbúðar. Eftir fráfall Sigurðar varð Kristján Valur Ingólfsson biskup í Skálholti.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands.Fréttablaðið/Pjetur
Breyting með nýjum vígslubiskupi

„Byggingin yfir Þorláksbúð er ekki nýtt af núverandi vígslubiskupi og virðist almennt vera óánægja með húsið á staðnum. Það er ekki vilji Minjastofnunar Íslands að húsið verði áfram þar sem það er nú og var Þorláksbúðarfélaginu tjáð það fyrr á árinu,“ skrifaði Kristín.

Í samtali við Fréttablaðið segir Kristín stöðu málsins óbreytta frá í desember. Aðspurð hvort raunhæft sé að flytja Þorláksbúð segir hún hægt að flytja öll hús. Þorláksbúð hafi einmitt verið byggð á loftpúðum og utan um rústir þar undir svo flytja mætti húsið síðar ef ákvörðun yrði tekin um það. Ekkert liggi fyrir um fjármögnun á hugsanlegum flutningi.

Kristín segir að gera eigi ráð fyrir lóð undir húsið fjær kirkjunni í nýju deiluskipulagi sem verið sé að vinna fyrir Skálholt. Óljóst eignarhald á Þorláksbúð flæki hins vegar málið. Hafi kirkjuráð í reynd tekið við mannvirkinu og vilji hafa það áfram á sama stað muni Minjastofnun ekki setja sig upp á móti því.

Árni Johnsen er einn þriggja forsvarsmanna Þorláksbúðarfélagsins ásamt Agli Hallgrímssyni, sóknarpresti í Skálholti og Geir Waage, sóknarpresti í Reykholti.Fréttablaðið/Vilhelm
Flutningur er rugl, segir Árni Johnsen

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær samþykkti kirkjuráð að veita 10,3 milljóna króna lán og eina milljón í styrk til Þorláksbúðarfélagsins til að gera upp skuld við smið verkefnisins.

Bæði Ragnhildur Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, og Árni Johnsen, einn forsprakka Þorláksbúðarfélagsins, segjast aðspurð telja útilokað að færa Þorláksbúð.

„Það er bara rugl,“ segir Árni Johnsen. „Hver einasti steinn er hlaðinn við næsta stein og það er ekki hægt að vera í einhverjum hífingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×