Innlent

Spáð er roki og rigningu fram undir helgi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Ef veðurspáin gengur eftir verður ausandi rigning í dag á höfuðborgarsvæðinu og úrfelli sunnanlands síðdegis.
Ef veðurspáin gengur eftir verður ausandi rigning í dag á höfuðborgarsvæðinu og úrfelli sunnanlands síðdegis. Vísir/Arnþór
Ekki verður hundi út sigandi ef veðurspá Veðurstofu Íslands gengur eftir í dag.

„Það er djúp lægð að ganga yfir landið. Það hvessir og úrkoma eykst sunnan- og suðvestanlands eftir því sem líður á morguninn,“ segir Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur.

Það verður talsverð rigning á höfuðborgarsvæðinu og síðdegis er gert ráð fyrir úrhellisrigningu sunnanlands. Þar sem spáð er miklu vatnsveðri geta ár og lækir bólgnað upp og ferðalöngum er bent á að fara með mikilli gát.

„Það verður hvasst við fjöll í hviðum, stærstu vindhviðurnar geta orðið 35 til 40 metrar á sekúndu,“ segir Hrafn. Menn ættu að hafa varann á, sérstaklega ef þeir draga hjólhýsi, kerrur eða tjaldvagna.

Hefurðu orðið var við vatnavexti eða áhrif votviðrisins um landið? Sendu okkur ábendingu eða myndir á ritstjorn@visir.is.

Hlýjast syðst á landinu

Í dag er gert ráð fyrir að hitinn verði á bilinu 12 til 20 stig, það verður hlýjast norðaustanlands.

Spáin er slæm næstu daga. Á miðvikudag snýst vindur í vestan- og norðvestanátt, spáin gerir ráð fyrir 8 til 15 metrum á sekúndu.

Rigningu er spáð norðan- og norðvestanlands en skúrum á höfuðborgarsvæðinu. Hitastigið verður á bilinu 12 til 15 stig.

Það á svo að stytta upp sunnan- og suðvestanlands á föstudag, en þá snýst vindur í norðanátt. Við það kólnar heldur og spáð er 7 til 15 stiga hita, hlýjast verður syðst á landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×