Innlent

Drekkingar minka gegn anda laganna

Svavar Hávarðsson skrifar
Heildarveiði á landinu frá 2000 til 2005 var um 7.000 minkar árlega en hefur farið minnkandi og var komin niður í 3.000 dýr árið 2012.
mynd/sigrún
Heildarveiði á landinu frá 2000 til 2005 var um 7.000 minkar árlega en hefur farið minnkandi og var komin niður í 3.000 dýr árið 2012. mynd/sigrún
Dýraverndunarsamband Íslands (DÍ) gagnrýnir harðlega að í nýjum lögum um velferð dýra sé gefin heimild til að drekkja mink í gildruveiði, en aflífun dýra með drekkingu er annars með öllu óheimil. Drekking minks er réttlætt með því hversu skilvirk og ódýr aðferðin hefur reynst.

„Þetta er siðlaust og óboðlegt. Menn eru dæmdir þegar hundi er drekkt vegna þess hversu grimmileg aðferðin er,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður DÍ, og bætir við að undanþágan gangi gegn anda laganna sjálfra um að dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti, og forðast beri að valda þeim óþarfa þjáningum eða hræðslu.

Hallgerður segir að það orki vægast sagt tvímælis að ein dýrategund á Íslandi sé ofurseld þessum andstyggilega dauðdaga, með því fororði að hún sé skaðleg og óvelkomin. Félagið hafi skilning á því að stofni minks sé haldið í skefjum, en ekkert réttlæti að það sé gert með þessum hætti. Löggjöf Norðurlandaþjóða endurspegli þetta og ástæða til að læra af því.

Sif Traustadóttir dýralæknir skrifar í nýjasta tölublaði Dýraverndarans um meðferð þeirra dýra sem skilgreind eru sem meindýr. Þar minnir hún á að búið er að sýna fram á með óyggjandi hætti að taugakerfi spendýra sé í engu frábrugðið taugakerfi manna. Sársaukaskyn þeirra sé því það sama. Um minkinn og nýju dýravelferðarlögin segir Sif:

„Þarna er ein dýrategund tekin fyrir og látin þola þjáningar sem ekki eru taldar boðlegar þegar um önnur dýr er að ræða.“

Blekið á nýjum lagatexta er vart þornað því ný lög um dýravelferð voru samþykkt á liðnum þingvetri. Þessi aðferð við að aflífa mink kom mjög við sögu í lagavinnunni, bæði innan atvinnuveganefndar og í umsögnum við frumvarpið. Þar kemur fram að minkurinn var sérstaklega tekinn út fyrir sviga og það gagnrýnt hart af dýraverndunarsinnum og fleirum. Á móti kemur að í umsögnum Landssambands veiðifélaga, Reynis Bergsveinssonar, sem fann upp svokallaða minkasíu sem um ræðir, og Æðarræktarfélags Íslands koma fram gagnstæð sjónarmið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×