Innlent

Fólk liggur á gluggum hjá Önnu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sól skein á húsfreyjuna á Holtagötu 1 og skrautgarðinn hennar um síðustu helgi.
Sól skein á húsfreyjuna á Holtagötu 1 og skrautgarðinn hennar um síðustu helgi. Fréttablaðið/Garðar
„Fólk labbar oft beint inn í garðinn án þess að spyrja um leyfi. Okkur er svo sem alveg sama,“ segir Anna Gunnarsdóttir þar sem hún situr á sólpallinum í fagurlega skreyttum garði sínum á Drangsnesi.

Anna segir að óhægt sé um vik með hefðbundna garðrækt á Drangsnesi. Fyrir meira en tíu árum hafi hún og eiginmaður hennar, Birgir Guðmundson trillusjómaður, byrjað að aka í garðinn möl sem þau handmokuðu upp á pallbíl í fjörunni í þorpinu. Síðan hafi bæst við netakúlur, bátaskrúfur og margt fleira spennandi.

Bátslíkan sem Guðbjörn Gunnarsson skar út. Birgir Guðmundsson bætti við möstrum og Anna sjálf skipverjum.Fréttablaðið/Garðar
Bróðirinn kemur í heimsókn og sker út

Margir staldra skiljanlega við heimili Önnu og Birgis á Holtagötu. Auk þess sem hjónin hafa sjálf verið ötul við að bæta við skrautmunum hefur Guðbjörn Gunnarsson, bróðir Önnu, lagt hönd á plóg. Guðbjörn vandi komur sína á árlega Bryggjuhátíð á Drangsnesi og skar í hvert skipti út nýjan mun úr rekaviði fyrir garðinn hjá Birgi og Önnu. Þar á meðal er bátslíkneski, maður, kona og köttur.

Húsið í brekkunni
Fallegir steinar frá mömmu og pabba

„Svo erum við með fallega steina sem mamma og pabbi tíndu þegar við áttum heima á Fáskrúðsfirði. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur spurðu þau hvort við vildum steinana og þegar við fórum suður tókum við einn og einn kassa með heim. Þannig að við maðurinn minn höfum fengið að njóta þeirra,“ segir Anna sem hefur augun opin fyrir nýjum hlutum í garðinn.

Skrautlegt umhverfi
Er búðin opin?

„Ég reyni alltaf að finna eitthvað. Í fyrra fann ég gamlan línubala sem ég flísalagði og hef fyrir tjörn með öndum. Maðurinn minn hefur sagað út blóm og ég hef málað þau. Þetta er mikil samvinna hjá okkur,“ segir Anna.

Lóðin hjá Önnu og Birgi er ekki afgirt og ramba margir forvitnir ferðalangar þangað inn og taka myndir. Í sólskálanum eru ýmsir munir frá ferðalögum þeirra hjóna. Anna segir að stundum hafi fólk verið komið alla leið að glerinu og horft inn. „Það hefur jafnvel skeð tvisvar eða þrisvar þegar hurðin á sólskálanum er opin að fólk hefur verið komið inn og spurt hvenær búðin opni,“ segir Anna og hlær innilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×