Innlent

Gjaldtöku frestað í Reykjahlíð

Sveinn Arnarsson skrifar
Gjaldtaka átti að hefjast við Dettifoss 1. júní síðastliðinn.
Gjaldtaka átti að hefjast við Dettifoss 1. júní síðastliðinn. Fréttablaðið/Vilhelm
Gjaldtaka Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf. átti að hefjast þann 1. júní síðastliðinn á þremur stöðum í landi Reykjahlíðar. Hins vegar bólar ekkert á gjaldtöku á svæðinu.

Guðrún María Valgeirsdóttir, formaður landeigendafélagsins og oddviti Skútustaðahrepps, var spurð hver væri ástæða þess að gjaldtaka væri ekki hafin. „Ég get ekki svarað því eins og staðan er núna,“ sagði hún og sagði blaðamanni að enginn gæti svarað því í augnablikinu.

Á þriðja tug starfsmanna réði sig til vinnu við að starfa fyrir einkahlutafélagið við gjaldtöku og búið er að breyta gamalli dælustöð Kísiliðjunnar í starfsmannabústaði til bráðabirgða gegn gildandi skipulagi Skútustaðahrepps.

Guðrún María hefur gefið það út að ekkert hafi breyst hvað varðar áform félagsins um gjaldtöku af ferðamönnum á svæðinu.

Ekki er einhugur meðal landeigenda Reykjahlíðar um gjaldtöku á svæðinu sem einkahlutafélagið áformar. Sumir landeigendur telja það grundvallarrétt manna að ganga óhindrað um íslenska náttúru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×