Innlent

Hafa gert atlögu að samstöðu á vinnumarkaði

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Samtök atvinnulífsins segja að tekist hafi að koma í veg fyrir víxlhækkun launa og verðbólgu.
Samtök atvinnulífsins segja að tekist hafi að koma í veg fyrir víxlhækkun launa og verðbólgu. Vísir/Vilhelm
„Það hefur ekki reynst næg samstaða um launalínuna sem var mótuð í desembersamningunum.

Því er ekki að neita að ýmis stéttarfélög, þá sérstaklega á opinbera markaðnum, hafa lagt til atlögu við þá línu sem mörkuð var,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hann tiltekur sérstaklega samninga BHM við sveitarfélögin og samninga sem gerðir hafa verið við grunn- og framhaldsskólakennara.

Alþýðusambands Íslands heldur því fram að tilraun sem gerð var fyrir áramót með kjarasamningum ASÍ við Samtök atvinnulífsins hafi mistekist. Tilgangurinn hafi verið að skapa breiða samstöðu sem ætlað hafi verið að stuðla að stöðugleika í gengi og verðlagi. Samið hafi verið um 2,8 prósenta hækkun auk sérstakra hækkana á lægstu laun. Stórir hópar hafi komið og samið um allt annað og meira en talið var að væri til skiptanna í kringum áramótin. Til sögunnar nefnir ASÍ kennarasamningana og samninga flugmanna við Icelandair.

Þorsteinn segir rangt að tilraunin hafi mistekist.

„Ef við horfum á stóru myndina þá var verkefnið að ná breytingum á þeim vítahring sem við höfum verið föst í, það er víxlhækkunum launa og verðbólgu. Það hefur tekist,“ segir Þorsteinn og bendir á að verðbólga hafi verið undir 2,5 prósenta verðbólguviðmiði Seðlabanka Íslands undanfarna mánuði.

„Það eru vissulega undantekningar þar sem ákveðnir hópar hafa samið um meira en var gert í desember. Það grefur undan samstöðunni,“ segir Þorsteinn og bætir við að verkefnið í næstu lotu sé að finna sameiginlega lausn sem raskar ekki grunnforsendum kjarasamninga og viðheldur stöðugleika.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, neitar því að tilraunin hafi mistekist. Hann segir að það hafi myndast tækifæri til að semja við grunnskólakennara eftir að framhaldsskólakennarar sömdu við ríkið.

„Það var búið að vinna lengi að þeim kerfisbreytingum sem samdist um og við vissum allan tímann að þær myndu þýða ákveðnar launahækkanir fyrir kennara,“ segir Karl og segir að aðrir samningar, sem sveitarfélögin hafa gert, séu í takt við samninga ASÍ við SA.

„Aðrir samningar en kennarasamningarnir eru í sama anda og ASÍ-samningarnir. Menn verða að hafa í huga þegar þeir eru að meta samninga hvað þeir eru gerðir til langs tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×