Erlent

Þýskalandsforseti segir þörf á fleiri innflytjendum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Joachim Gauck, forseti Þýskalands.
Joachim Gauck, forseti Þýskalands. vísir/afp
„Landið okkar þarf á innflytjendum að halda,“ sagði Joachim Gauck Þýskalandsforseti í ræðu í síðustu viku. Hann sagði innflytjendur auðga þýskt samfélag og þótt breytingarnar geti stundum verið erfiðar þurfi enginn að óttast það sem við tekur.

„Við eigum að hætta að tala um „okkur“ og „hina“. Hugtakið „við“ hefur fengið nýja merkingu, sem er eining hinna ólíku,“ sagði Gauck í hátíðarræðu sem hann flutti í síðustu viku í tilefni þess að 65 ár eru liðin frá því stjórnarskrá Þýskalands gekk í gildi.

Sjálfur hafi hann reynslu af því að heimamenn í Austur-Þýskalandi, þar sem hann bjó, hafi fyrst látið eins og þeir sæju ekki innflytjendur, síðar hafi þeir afneitað þeim og hafnað, smám saman hafi þeir svo farið að umbera þá og loks tekið að líta á þá sem tækifæri og fagna þeim. „Í dag veit ég að við glötum ekki okkur sjálfum, þótt við tökum við fjölbreytni. Við viljum þetta fjölþætta „við“.“

Þýskaland fékk núgildandi stjórnarskrá sína árið 1949, aðeins örfáum árum eftir að hildarleik heimstyrjaldarinnar lauk með ósigri þýskra nasista. Höfundar hennar lögðu mikla áherslu á að tryggja mannréttindi og útiloka mismunun.

Navid Karmani Karmani er þekktur rithöfundur í Þýskalandi. Hann ávarpaði þýska þingið á föstudag í tilefni af 65 ára afmæli stjórnarskrárinnar.Mynd/Þýska þjóðþingið
Þýski rithöfundurinn Navid Kermani, sem er sonur íranskra innflytjenda, ávarpaði á föstudag þýska þingið í tilefni afmælis stjórnarskrárinnar. Hann sagði Þjóðverja geta verið stolta af stjórnarskránni, sem tryggi innflytjendum ekki síður en innfæddum grundvallarmannréttindi. Hann sagðist fullur þakklætis fyrir hönd innflytjenda og fékk hvað eftir annað dynjandi lófaklapp frá þingsalnum.

Kermani notaði hins vegar tækifærið einnig til að gagnrýna þýsk stjórnvöld, úr ræðupúlti þingsins, harðlega fyrir stefnu þeirra í innflytjendamálum.

Hann sagði hart að vita til þess að Þýskaland hafi ekki tekið við nema rétt um 10 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi, eða brotabroti af þeim níu milljónum manna sem hafa flúið borgarastyrjöldina þar.

„Enn í dag er fjöldi fólks sem á tilveru sína undir því að önnur lýðræðisleg lönd opni dyr sínar,“ sagði hann, og nefndi bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden sem dæmi um einn þeirra. „Aðrir drukkna í Miðjarðarhafinu – þúsundir á hverju ári.“

Sérstaklega gagnrýndi Kermani þær breytingar, sem gerðar voru árið 1993 á 16. grein þýsku stjórnarskrárinnar, sem upphaflega tryggði öllum, sem sæta pólitískum ofsóknum í heimalandi sínu, rétt á pólitísku hæli í Þýskalandi. Orðalag þeirrar breytingar hafi verið tyrfið og illa orðað beinlínis í þeim tilgangi að fela það að í reynd hafi breytingin verið þess eðlis að það teljist ekki lengur til mannréttinda að pólitískir flóttamenn fái hæli í Þýskalandi.

Þessi gagnrýnisorð hans uppskáru reyndar dynjandi lófatak frá þingheimi, ekki síður en þakklætisorð hans í garð Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×