Lífið

"Ég er ljúfur að eðlisfari”

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Það væri ekki gaman að mæta þessum í dimmu húsasundi.
Það væri ekki gaman að mæta þessum í dimmu húsasundi.
„Ég var fenginn til að leika vonda kallinn þar sem ég minni á þá mynd sem fólk hefur af vonda kallinum. Það þurfti rosalega mikið meiköpp til að gera mig vondan. Ég er ljúfur að eðlisfari,“ segir Guðfinnur Karlsson, betur þekktur sem Finni í hljómsveitinni Dr. Spock. Hann leikur illmennið í Eurovision-myndbandinu fyrir lagið Enga fordóma með Pollapönki sem tekið var upp fyrir stuttu. Hann leikur fordómafullan mann sem hefur fordóma gagnvart alls kyns fólki. Þá kemur Pollapönk til sögunnar enda berst hljómsveitin gegn fordómum.

„Pollapönkararnir eru náttúrulega bestu vinir mínir þannig að það lá beinast við að koma mér inn í þetta batterí. Addi (Arnar Þór Gíslason, trommari) tróð mér í þetta svo ég fengi smá Eurovision í blóðið,“ segir Finni. Hann veit ekki hvort hann fær að fara með sveitinni til Kaupmannahafnar í maí.

„Það þarf mikinn pening til að það gangi upp – vondi kallinn tekur auðvitað ekki hverju sem er. Ég er Naomi Campbell Eurovision-heimsins. Valli sport er að drafta upp stóran samning þannig að það kemur í ljós.“

Stefnt er að því að frumsýna myndbandið næsta föstudag. Finni hafði gaman af því að leika í því en vonar að fólk um allan heim haldi ekki að hann sé í raun eins illur og karakterinn hans.

„Ég vona að fólk verði ekki hrætt við mig í Kringlunni enda góður maður að eðlisfari. Þetta verður auðvitað skrýtið en þetta endar allt vel. Ég held til dæmis að Glanni glæpur sé ekki skotinn niður neins staðar í heiminum.“

Finni segir hafa þurft mikið af málningu til að gera hann illan.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×