Innlent

Undanþágur í ESB-viðræðum fáar en fáanlegar

Þorgils Jónsson skrifar
Frá samningaborðinu í Brussel. Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir meðal annars að erfitt sé að fá varanlegar undanþágur frá sameiginlegu stefnunum um landbúnað og sjávarútveg. Fordæmi sé þó fyrir sérlausnum.
Frá samningaborðinu í Brussel. Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir meðal annars að erfitt sé að fá varanlegar undanþágur frá sameiginlegu stefnunum um landbúnað og sjávarútveg. Fordæmi sé þó fyrir sérlausnum. Mynd/ESB
Í aðildarsamningum nýrra ríkja í ESB er lagalega unnt að kveða á um undanþágur, þrátt fyrir að sambandið leggi alltaf fram þá meginreglu í aðildarviðræðum að umsóknarríki gangi að regluverki sambandsins óbreyttu. Frá þessu eru almennt aðeins veittar tímabundnar undanþágur sem eru hugsaðar sem aðlögunartími. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna Íslands við ESB og þróun sambandsins sem gefin var út í gær og verður rædd á Alþingi í dag.

Engar varanlegar undanþágur sem slíkar er að finna á sviðum landbúnaðar og sjávarútvegs í fyrri aðildarsamningum, en tímabundnar undanþágur hafa verið gefnar og er gildistími þeirra misjafn og umsemjanlegur.

Þá hafi ESB breytt reglum sínum í þágu einstakra aðildarríkja, meðal annars um innanlandsstuðning Svía og Finna til landbúnaðar á harðbýlum svæðum norðan 62. breiddargráðu og um vernd fiskistofna í Miðjarðarhafi, sem sniðin var að þörfum Möltu.

Slík ákvæði eru þó breytingum háð eins og önnur lög sambandsins.

Í skýrslunni segir að erfitt geti reynst að ná fram varanlegum undanþágum frá reglum, sérstaklega varðandi landbúnað og sjávarútveg, en „[s]é keppt að slíku markmiði í aðildarviðræðum verður að kveða á um allar slíkar undanþágur með mjög skýrum hætti ef tryggja á að þær haldi.“



Meðal helstu atriða:

Staða umsóknarferlisins

  • Stækkunarferlið nú er mun strangara en áður tíðkaðist.
  • Erfitt hefði verið, miðað við framvinduskýrslur ESB, að semja út frá meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis, meðal annars um formlegt forræði yfir sjávarauðlindum, takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila og forsvar á alþjóðavettvangi.
  • Reynsla annarra þjóða sýnir að erfitt hefur verið að ná varanlegum undanþágum frá sameiginlegri stefnu ESB.
  • Óheppilegt er, við mat á stöðu viðræðnanna, að ekki hafi tekist að opna þá sex samningskafla sem stóðu út af þegar hlé var gert á viðræðunum, sérstaklega þá fjóra þar sem ekki hafði verið lokið við gerð samningsafstöðu, þar sem þar hefði verið tekið á ýmsum álitamálum.
Laga- og stofnanaþróun ESB

  • Fleiri málaflokkar falla undir venjulega málsmeðferð og aukinn og endurskilgreindan meirihluta í ráðherraráðinu.
  • Völd Evrópuþingsins hafa farið vaxandi, bæði í löggjöf, fjárlögum, gerð alþjóðlegra samninga og skipun framkvæmdastjórnarinnar.
  • ESB hefur leitast við að mæta kröfu um aukið lýðræði til handa íbúum og það er styrkt með tilkomu Lissabonsáttmálans. Auk þess hafa áhrif þjóðþinga farið vaxandi til að vinna upp meintan lýðræðishalla og nálægðarreglan verið útfærð frekar, en hún kveður á um að ákvörðun sé tekin sem næst þeim sem hún snertir.
Staða og horfur í efnahagsmálum ESB

  • Spár gera ráð fyrir að hagvöxtur í ESB næstu ár verði lægri en í Bandaríkjunum. Þó getur vöxtur verið afar mismunandi frá einu landi til annars.
  • Verðbólga er misjöfn milli landa, en munurinn fer minnkandi. Verðbólga er meiri hér á landi og spár gera ráð fyrir að svo verði áfram.
  • Löndum ESB hefur gengið misjafnlega að uppfylla Maastricht-skilyrðin svokölluðu um afgang af rekstri og skuldir hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
  • Færa má rök fyrir því að evran sem sameiginlegur gjaldmiðill hafi lækkað viðskiptakostnað og leitt til betri samkeppnishæfni fyrirtækja. Lækkun vaxta hefur líka almennt haft jákvæð áhrif á fjárfestingar og neyslu. Vegna þessa hefur verið áætlað að verg framleiðsla á evrusvæðinu hafi verið um 330 milljörðum meiri árið 2010 en ella.
  • Stóra vandamál evrusvæðisins er óleyst. Hagþróun ríkjanna er ólík og sameiginleg mynt bindur hendur einstakra ríkja til að bregðast við þróun efnahagsmála. Þá hefur reynst erfitt að samræma ríkisfjármál og hjálpa þeim ríkjum sem standa illa.
  • Til að leysa þau vandamál má hugsa sér að gripið verði til þess að auka samráð milli ríkja sem gæti takmarkað ákvörðunarvald landa yfir eigin fjármálum.
Sjávarútvegsmál

  • Með breytingum á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB er lögð áhersla á svæðisbundna stjórnun og aukna ákvarðanatöku í héraði. Aðildarþjóðir fá þar frjálsari hendur en áður til að ákveða hvernig markmiðum kerfisins er náð. Markmiðin og ákvörðun um heildarafla liggur enn hjá ESB.
  • Í skýrslunni segir að ESB sé að nálgast íslenska kerfið með reglubreytingunum.
  • Fátt bendir til þess að varanlegar undanþágur fáist vegna fjárfestingar útlendinga og kaupa á aflaheimildum, auk þess sem samningsumboð vegna skiptingar úr flökkustofnum færist til ESB, þó alltaf sé þar leitað samráðs við aðildarríki. Loks verður heildarafli ákveðinn á vettvangi ESB þrátt fyrir að Ísland væri skilgreint sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði.
  • Ísland fengi nær örugglega ekki undanþágu frá banni við hvalveiðum.
  • Hingað til hefur gengið erfiðlega að fá varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni. Hins vegar hafa fengist tímabundnar undanþágur og í sumum tilfellum, til dæmis hjá Möltu, hafa fengist fram breytingar á löggjöf ESB áður en til inngöngu kemur.
Landbúnaðarmál

  • Ný sameiginleg landbúnaðarstefna var fullgerð á síðasta ári og samþykkt í upphafi þessa árs.
  • Stefnt er að minni markaðsafskiptum í landbúnaðarkerfinu sem og meiri byggðaáherslum í sambandi við umhverfismarkmið ESB.
  • Stuðningur við landbúnað hér á landi er meiri en gerist í styrkjakerfi ESB. Aðildarríki hafa rétt á að styrkja landbúnað á harðbýlum svæðum.
  • Embættismenn ESB sögðust ekki sjá fyrir óleysanleg vandamál og þó ekki væri hægt að semja um undanþágu frá niðurfellingu tollverndar hefði mátt ræða hvernig væri hægt að bæta innlendum framleiðendum upp tapið af afnámi tollanna.
  • Í opnunarviðmiðum ESB var sérstaklega tekið fram að taka bæri tillit til sérstöðu íslensks landbúnaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×