Innlent

Lögreglu ekki tilkynnt um mistök við lyfjagjöf

Elimar Hauksson og Hrund Þórsdóttir skrifar
Þurí Jónasdóttir, tengdadóttir Péturs, segir fjölskylduna ósátta við að honum hafi ekki verið gefið mótefni þótt það hafi verið fyrir hendi.
Þurí Jónasdóttir, tengdadóttir Péturs, segir fjölskylduna ósátta við að honum hafi ekki verið gefið mótefni þótt það hafi verið fyrir hendi.
Pétur Pétursson lést vegna mistaka sem gerð voru við umönnun hans á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði nú fyrir áramótin.

Banamein Péturs var rangur lyfjaskammtur, sem ætlaður var herbergisfélaga hans. Í kjölfarið var svo tekin ákvörðun um að gefa Pétri ekki mótefni og lést hann rúmri viku síðar.

Pétri var gefið lyfið Contalgin, sem er mjög sterkt morfínlyf. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var skammturinn sem hann fékk um tvítugfalt það magn sem manneskja sem ekki hefur byggt upp þol gagnvart lyfinu á að þola.

Starfsmaðurinn sem um ræðir gerði sér strax grein fyrir mistökum sínum og tilkynnti þau til yfirmanna. Pétur var í kjölfarið fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og segja aðstandendur að sjúkraflutningamenn hafi viljað gefa honum mótefni sem var til staðar. Þeir hafi hins vegar fengið tilmæli frá HSS um að gera það ekki. Þurí Jónasdóttir, tengdadóttir Péturs, segir aðstandendur ekki skilja hvers vegna það var ekki gert.

Pétur Pétursson
„Það erum við auðvitað ósátt við. HSS mat hann kannski of lélegan eða of gamlan og við spyrjum okkur líka; ef hann hefði verið yngri, ekki 83 ára, hefði þá eitthvað verið gert? Hver var ástæðan fyrir því að ekkert var gert?“ segir Þurí.

Í lögum um dánarvottorð kemur fram að lækni, sem kvaddur er til líkskoðunar, sé skylt að gera lögreglu viðvart ef ætla má að dauðsfall megi rekja til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við læknismeðferð. Fréttablaðið hafði samband við Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjón á Suðurnesjum, en hann kannaðist ekki við málið.

„Okkur hefur ekki borist tilkynning um neitt slíkt,“ sagði Jóhannes.

Málið er nú til skoðunar hjá embætti Landlæknis en Geir Gunnlaugsson landlæknir sagðist ekki geta ekki tjáð sig um einstök mál sem væru til skoðunar hjá embættinu. Hann sagði að þegar óvænt atvik kæmu upp þá væri embættið upplýst um slíkt

„Viðkomandi heilbrigðisstofnun upplýsir landlækni með greinargerð ef eitthvað hefur óvænt gerst. Síðan skoðum við aðdragandann og bregðumst við á viðeigandi hátt,“ sagði Geir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×