Erlent

Barist á götum Kiev

Vítalí Klitsjkó, heimsmeistari í boxi og einn leiðtoga úkraínsku stjórnarandstöðunnar, í stympingum við aðra mótmælendur.
Vítalí Klitsjkó, heimsmeistari í boxi og einn leiðtoga úkraínsku stjórnarandstöðunnar, í stympingum við aðra mótmælendur. Nordicphotos/AFP
Hundruð mótmælenda héldu um helgina út á götur í Kíev, höfuðborg Úkraínu, þrátt fyrir ný lög sem setja strangar skorður við mótmælum. Til átaka kom við lögreglu.

Margir mótmælendur voru með hjálma og gasgrímur og reyndu að komast í áttina að þinghúsinu, sem lögreglan hafði girt af. Sumir tóku að ráðast á lögregluna með bareflum, og sumir köstuðu eldsprengjum og beittu jafnvel rafstuðssprengjum og slökkvitækjum. Einhverjir særðust og þurfti að hlúa að þeim.

Vitalí Klitsjkó, einn af helstu leiðtogum stjórnarandstöðunnar, reyndi að koma í veg fyrir að mótmælendur réðust að lögreglunni, en varð þá sjálfur fyrir árásum.

Andstæðingar Viktors Janúkovítsj forseta hafa staðið fyrir nánast linnulausum mótmælum í miðborg Kíev frá 21. nóvember síðastliðnum, þegar hann hætti við að undirrita samstarfssamning við Evrópusambandið. Í staðinn gerði hann samning um nánari tengsl við Rússland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×