Erlent

Kúvending í afstöðu Tékklands til ESB

Bohuslav Sobotka undirritar embættiseið sinn.
Bohuslav Sobotka undirritar embættiseið sinn. Vísir/AP
Bohuslav Sobotka tók í gær við embætti forsætisráðherra Tékklands. Sobotka er vinstrimaður, leiðtogi Sósíaldemókrata og var fjármálaráðherra síðast þegar sá flokkur var við völd, en það var á árunum 2002 til 2006.

Kúvending verður í afstöðu ríkisstjórnar Tékklands til Evrópusambandsins, því fyrri ríkisstjórn Borgaralega lýðræðisflokksins var afar andsnúin ESB, öfugt við Sobotka sem tók þátt í að semja um aðild Tékklands að ESB.

Undir stjórn forvera hans var Tékkland, auk Bretlands, eina aðildarríki ESB sem ekki vildi taka þátt í fjárlagabandalaginu nýja, sem sett var á laggirnar eftir að skuldakreppa tók að herja illilega á sum aðildarríkjanna. Sobotka hefur lýst yfir eindregnum vilja til að taka þátt í þessu samstarfi, þannig að Bretar verða þá eina ríkið sem ekki verður með.

Þingmeirihluti fyrri stjórnar féll í júní síðastliðnum í kjölfar hneykslismála, sem tengdust bæði mútugreiðslum og njósnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×