Innlent

Tveggja ára fangelsi fyrir heimilisofbeldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stjúpdóttirin hlaut fjölmarga yfirborðsáverka á höfði og andliti, þar á meðal bólgu undir hægra auga, tvær kúlur í hársverði og sár neðan við nef.
Stjúpdóttirin hlaut fjölmarga yfirborðsáverka á höfði og andliti, þar á meðal bólgu undir hægra auga, tvær kúlur í hársverði og sár neðan við nef. Vísir/Getty
Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á hendur fyrrverandi eiginkonu sinni og stjúpdóttur. Árásin átti sér stað að morgni laugardagsins 28. september á heimili þeirra í Breiðholti.

Einnig var honum gert að greiða konunum samanlagt eina og hálfa milljón króna í skaðabætur. Sjö hundruð þúsund annars vegar og átta hundruð þúsund hins vegar.

Manninum var gefið að sök að hafa rifið í hár stjúpdóttur sinnar og kýlt hana í andlitið, hrint henni í gólfið og fyrir að hafa að minnsta kosti sparkað í höfuð hennar í tvígang þar sem hún lá á gólfi íbúðarinnar.

Stjúpdóttirin hlaut fjölmarga yfirborðsáverka á höfði og andliti, þar á meðal bólgu undir hægra auga, tvær kúlur í hársverði og sár neðan við nef. Þá hlaut hún hreyfieymsli yfir andlitsbeinum og hryggjartindum.

Þá veittist maðurinn að eiginkonu sinni, hrækti á hana, reif í hár hennar og sló hana. Þá á hann að hafa kýlt hana bæði í höfuð og maga eftir að hún féll á gólf íbúðarinnar. Þá reyndi maðurinn að bíta konuna í andlitið.

Við aðalmeðferð málsins bar maðurinn því alltaf við að frásögn mæðgnanna væri uppspuni frá rótum. Stjúpdóttirin sagði að samskipti þeirra hefðu verið góð til að byrja með en breyst eftir því sem hún varð eldri. Á hennar yngri árum hafi það alltaf verið móður sinni að kenna þegar eitthvað hafi komið upp á. Að hann hafi í raun heilaþvegið hana.

„Þegar ég varð eldri sá ég að hann var að gera það sama við yngri systkini mín.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×