Innlent

Sérstaklega hættuleg líkamsárás: Sparkaði í höfuð stjúpdóttur sinnar í tvígang

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Getty
Íslenskur karlmaður hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á hendur stjúpdóttur sinni og að ráðast á fyrrverandi eiginkonu sína. Árásin átti sér stað á heimili mæðgnanna í Reykjavík að morgni laugardagsins 28. september árið 2013. Ákærði neitaði sök við þingfestingu á dögunum.

Manninum er gefið að sök að hafa rifið í hár stjúpdóttur sinnar og kýlt hana í andlitið, hrint henni í gólfið og fyrir að hafa að minnsta kosti sparkað í höfuð hennar í tvígang þar sem hún lá á gólfi íbúðarinnar.

Stjúpdóttirin hlaut fjölmarga yfirborðsáverka á höfði og andliti, þar á meðal bólgu undir hægra auga, tvær kúlur í hársverði og sár neðan við nef. Þá hlaut hún hreyfieymsli yfir andlitsbeinum og hryggjartindum.

Þá veittist maðurinn að eiginkonu sinni, hrækti á hana, reif í hár hennar og sló hana. Þá á hann að hafa kýlt hana bæði í höfuð og maga eftir að hún féll á gólf íbúðarinnar. Þá reyndi maðurinn að bíta konuna í andlitið.

Stjúpdóttirin krefst 1,2 milljóna króna í skaðabætur en eiginkonan fyrrverandi 800 þúsund króna. Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×