Innlent

Safna fyrir hjóli til að Guðmundur Orri komist í hjólatúr með fjölskyldunni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Draumahjólið kostar um 1,5 milljón en það er með sérstökum rampi að framan sem hægt er að setja hjólastól eða kerru.
Draumahjólið kostar um 1,5 milljón en það er með sérstökum rampi að framan sem hægt er að setja hjólastól eða kerru. Vísir / Esther Gestsdóttir
Fjölskylda Guðmundar Orra, níu ára drengs á Akureyri, sem er greindur með heilalömun, þroskahömlun og flogaveiki safna nú fyrir sérstöku hjóli fyrir hann svo að hann geti farið út að hjóla með fjölskyldunni. Guðmundur Orri á þrjú systkini og er „útivistargaur“, að sögn móður hans, Estherar Gestsdóttur.

„Þetta mun breyta mjög miklu,“ segir hún. „Þetta verður bylting fyrir hann. Hann fékk hjól þegar hann var yngri hjá Tryggingastofnun, sem var með þremur hjólum sem hann gat hjólað sjálfur á. Hann hefur hinsvegar farið svo aftur í hreyfiþroska að hann getur ekki notað það lengur. Hann hefur ekki orku eða líkamann í það. Þetta mun því verða mikil breyting.“

Guðmundur Orri þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Hann getur tjáð sig með því að nota tákn með tali en hann getur líka sagt nokkur orð.

Dýr draumur

Draumahjólið kostar um 1,5 milljón en það er með sérstökum rampi að framan sem hægt er að setja hjólastólinn hans eða kerruna á hjólið. „Við bara rúllum honum upp á þennan ramp,“ segir Esther en vinafólk fjölskyldunnar á svoleiðis hjól sem Guðmundur Orri hefur fengið að prófa með fjölskyldunni. „Þá var hann alsæll,“ segir hún.

Söfnunin hefur staðið síðan í lok ágúst og er þegar búin að safnast tæp milljón. „Við ætlum að panta eftir áramót þannig að hjólið verður komið í sumar,“ segir Esther. „Þetta eru mestmegnis einstaklingar sem hafa lagt inn á en svo fengum við frá einum félagasamtökum.“ 

Fjölskyldan hefur fengið að prófa sambærilegt hjól hjá vinafólki sínu.Vísir / Esther Gestsdóttir
Esther segir söfnunina hafa gengið mjög vel. „Þetta er búið að ganga ótrúlega vel. Okkur grunaði ekki að þetta myndi ganga svona ótrúlega vel. Fólk er búið að taka mjög vel í þetta og við erum mjög ánægð með þetta.“

Í hjólatúr næsta sumar

Fjölskyldan stefnir að því að fara í fyrsta hjólatúrinn með Guðmund Orra á nýja hjólinu næsta sumar. „Við erum mjög spennt. Þetta verður frekar skrýtið örugglega að fara öll saman,“ segir hún. „Ég hjóla með þeim yngsta í leikskólann, sæki hann fyrr og hjóla með honum heim, en það er alltaf leiðinlegt að geta ekki verið öll saman.“

Þó að hjólatúrarnir hafi ekki verið margir hefur fjölskyldan farið saman á skíði. „Það er mjög gaman,“ segir hún en skíðasvæðið í Hlíðafjalli hefur lánað Guðmundi Orra græjur til að gera honum kleift að skíða. Búnaðinn hefur Esther getað leigt fyrir son sinn til að fara á önnur skíðasvæði. „Hann er algjör útivistargaur og elskar að fara í útilegur og allt þetta. Hann er alveg „all in“ í þessu,“ segir hún.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning í vörslu í Arion banka. Reikningsnúmerið er 0347-13-110065 og kennitalan 020305-3040. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×