Innlent

Segir Hönnu Birnu ekki geta sæst við annað en vafalausa niðurstöðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorsteinn Pálsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Þorsteinn Pálsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Vísir/GVA/Stefán
„Ráðherrann þarf einfaldlega að geta hreinsað alla starfsmenn ráðuneytisins eða dregið einhvern þeirra til ábyrgðar. Takist það ekki gæti þrengst um varnir hans sjálfs.“ Þetta skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Þar vísar hann til stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, vegna lekamálisins svokallaða.

Þorsteinn segir að þegar lögreglurannsókn hafi farið af stað hafi engar skýrar reglur mælt fyrir um að Hanna Birna þyrfti að víkja. Þá segir hann að hafa beri í huga að ráðherrar geti ekki vikið tímabundið eins og aðrir embættismenn, þegar lögreglurannsókn beinist að þeim.

„Þeir segja formlega af sér og það er alfarið háð pólitískri stöðu hvort þeir eiga afturkvæmt.“

Forsætisráðherrann fyrrverandi bendir á að nýlega hafi komið í ljós að Hanna Birna hafi á ákveðnum tímapunkti talið nauðsynlegt að eiga samtöl við lögreglustjóra um framgang rannsóknarinnar. Hún segi það hafa verið nauðsynleg og eðlileg samtöl.

„Ástæðulaust er að vefengja það. En um leið var þá komin upp ný staða. Er hér var komið sögu sýnast hæfisreglur stjórnsýslulaga hafa náð til málsins,“ segir Þorsteinn.

„Þegar ráðherra mat aðstæður með þeim hætti að slík samtöl væru óhjákvæmileg hefði hann þar af leiðandi átt að óska eftir því við forsætisráðherra að forseti Íslands skipaði annan ráðherra í ríkisstjórninni til þess að fara með yfirstjórn lögreglunnar að því er varðaði þessa tilteknu rannsókn og eiga þau samtöl sem nauðsynleg þættu.“

Þorsteinn segir setningu ráðherra til meðferðar einstaks máls sé vel þekkt eftir gildistöku stjórnsýslulaga fyrir tuttugu árum síðan.

„Hún veikir ekki stöðu viðkomandi ráðherra, hvorki lagalega né pólitískt, en eyðir tortryggni.“

Þá segir Þorsteinn að hafi lögreglurannsókn ekki leitt í ljós hver beri ábyrgð á því að skjalið umtalaða hafi farið úr ráðuneytinu þannig að hafið sé yfir allan vafa, geti ríkissaksóknari ekki aðhafst.

„En málið er aftur á móti þannig vaxið að héðan af getur ráðherrann ekki sætt sig við að það sofni þannig án nokkurrar niðurstöðu.“

Hann segir að séu allar öryggisreglur innanríkisráðuneytisins í lagi hafi skjalið ekki komist úr húsi án atbeina starfsmanns þess. Hver sem það sé búi hann einn yfir vitneskju sem geti leyst Hönnu Birnu úr klípunni.

„Ráðherrann þarf einfaldlega að geta hreinsað alla starfsmenn ráðuneytisins eða dregið einhvern þeirra til ábyrgðar. Takist það ekki gæti þrengst um varnir hans sjálfs,“ segir Þorsteinn.


Tengdar fréttir

Hanna Birna krafin um skýrari svör

Umboðsmaður Alþingis hefur ritað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, og óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum um samskipti innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.

Tvísýn staða Hönnu Birnu

Skiptar skoðanir eru um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þingmaður flokksins segir að staða Hönnu Birnu sé mjög veik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×