Innlent

Innanríkisráðherra hótað lífláti

Hjörtur Hjartarson skrifar
Innanríkisráðherra hafa borist fjölmargar líflátshótanir og hótanir um líkamsmeiðingar á undanförnum vikum og mánuðum.

Hótanirnar sem allar hafa komið í kjölfar lekamálsins svokallaða, hafa ekki verið kærðar til lögreglu sem hefur þó aukið eftirlit með heimili hennar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra greindi frá því á Sprengisandi á Bylgjunni að henni hefðu borist hótanir án þess þó að greina frá því í smáatriðum.

„Ég hef fengið ítrekaðar hótanir. Ég hef fengið morðhótanir út af þessu. Þetta er öryggismál og ég hef ekkert verið að hvetja alla til að vinda sér inn í þann hring. Mér finnst alveg nóg að ég standi í því,“ sagði Hanna Birna á Sprengisandi.

Hanna Birna vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar eftir því var leitast í dag en samkvæmt heimildum fréttastofu hafa hótanirnar borist henni í gegnum tölvupóst og Facebook. Hótanir um líkamsmeiðingar, myndrænar lýsingar á þeim slæmu hlutum sem muni komi fyrir hana og hennar fjölskyldu og hreinar og klárar líflátshótanir eru á meðal þess sem hún hefur fengið sent.

Lögreglunni hefur verið gert viðvart um hótanirnar en þær ekki kærðar. Lögreglan ákvað í kjölfarið að auka eftirlit með heimili Hönnu Birnu sem felur í sér að lögreglubíl er reglulega ekið þar um.

Ekki hefur verið gripið til þessa ráðs að veita Hönnu frekari vernd. Þó er unnið eftir ákveðnum starfsreglum sem tryggja eiga öryggi Hönnu Birnu og fjölskyldu hennar ætli sér einhver að gera alvöru úr hótunum sínum.

Algengt er að ráðherrar í löndunum í kringum okkur séu með lífverði og þá sérstaklega ráðherrar dómsmála. Ekki hefur verið talin þörf á að veita ráðherrum á Íslandi sömu vernd þó dæmi séu um að svo hafi verið gert.

Nærtækast er að horfa aftur til 2008 en í kjölfar hrunsins þótti ráðlegt að veita ákveðnum stjórnmálamönnum vernd eftir að þeim hafði verið hótað og að þeim veist.

Erfitt að spá fyrir um hvort þetta sé það sem koma skal, það er að stjórnmálamenn á Íslandi þurfi að búa við reglulegar líflátshótanir og ekki síður hvaða áhrif það kemur til með að hafa á störf þeirra.


Tengdar fréttir

Óviðunandi ógn við ráðherra

Lögreglumenn á vettvangi tóku ekki eftir því þegar mótmælandi við Alþingishúsið veittist að forsætisráðherra eftir að hafa stjakað við lögreglumanni. Forseti Alþingis segir tilburðina vera algerlega óviðunandi.

Aðsúgur gerður að Geir Haarde - eggjum rigndi yfir ráðherrabílinn

Gerður var aðsúgur að Geir Haarde forsætisráðherra rétt í þessu við Stjórnarráðið þegar Geir var á leið út úr húsinu. Að sögn sjónarvotta voru mikil læti fyrir framan húsið og rigndi snjóboltum meðal annars yfir ráðherrann. Geir komst við illan leik inn í ráðherrabifreið sína sem var umkringd fólki.

Tvísýn staða Hönnu Birnu

Skiptar skoðanir eru um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þingmaður flokksins segir að staða Hönnu Birnu sé mjög veik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×