Erlent

Í mál vegna myndar um kynlífsfíkil

Birta Björnsdóttir skrifar
Svo virðist sem einhverjir eftirmálar verði af gerð kvikmyndarinnar Welcome to New York, sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes á dögunum.

Myndin fjallar um mann sem þjáist af kynlífsfíkn og reynir meðal annars að svala fýsnum sínum með herbergisþernu á hóteli.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, hefur nú höfðað mál gegn leikstjóra og framleiðendum kvikmyndarinnar vegna líkinda í söguþræðinum við hans eigið líf.

Strauss-Kahn sagði upp störfum fyrir þremur árum, eins og kunnugt er, þegar starfskona á hóteli kærði hann fyrir nauðgun. Sættir náðust þó í málinu áður en það fór fyrir dóm.

Leikstjórinn, Abel Ferrara, gefur þó lítið fyrir ákæruna.

„Hér ríkir tjáningarfrelsi og ég er listamaður," sagði leikstjórinn. „Þetta er ekki heimildarmynd."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×