Erlent

Umdeildum grínista bannað að skemmta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frakkar sýna "kjötbollukveðjuna”, öfuga nasistakveðju sem Diuedonne M'Bala M'Bala hefur óspart notað á skemmtunum sínum.
Frakkar sýna "kjötbollukveðjuna”, öfuga nasistakveðju sem Diuedonne M'Bala M'Bala hefur óspart notað á skemmtunum sínum. Nordicphotos/AFP
Franska grínistanum Dieudonne M'Bala M'Bala var í gærkvöld bannað að koma fram í borginni Nantes, þrátt fyrir að fyrr um daginn hafi dómstóll þar í borg gefið grænt ljós á skemmtanir hans.

Maðurinn hefur verið sakaður um gyðingahatur og hann hefur ítrekað hlotið dóm fyrir að hafa hvatt til kynþáttahaturs. Á skemmtunum sínum gerir hann einatt grín að gyðingum og vísar þá óspart til helfararinnar. Hann er einnig þekktur fyrir það sem hann kallar „öfuga nasistakveðju”, sem hann kallar „quenelle”.

„Quenelle” er kjöt- eða fiskbolla, ekki þó hnöttótt í laginu heldur ílöng.

Franski grínistinn Dieudonne M'Bala M'Bala þegar hann hugðist bjóða sig fram til Evrópuþingsins árið 2009.Mynd/AP
Borgaryfirvöld í Nantes tóku fyrir nokkru ákvörðun um að heimila honum ekki að koma fram í borginni, og stóðu við það í gærkvöld þrátt fyrir úrskurð dómstólsins fyrr um daginn.

Þúsundir manna, sem höfðu ætlað sér að mæta, stóðu fyrir utan skemmtistaðinn harla ósáttar við málalok. Næstum uppselt var á skemmtunina í Nantes, sem átti að verða upphafið að sýningaferð um landið þar sem hann hugðist koma fram á þrjátíu stöðum.

Málið hefur verið mjög umrætt í Frakklandi síðustu daga. Manuel Valls innanríkisráðherra hefur sagt að hann vilji að Dieudonne verði bannað að koma fram alls staðar í landinu: „Almenningur ætti ekki að fara á þessar skemmtanir,” sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×