Fótbolti

Messi skoraði tvö en Nígería slapp með skrekkinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi fagnar fyrra marki sínu í dag.
Lionel Messi fagnar fyrra marki sínu í dag. Vísir/Getty
Lionel Messi skoraði tvö mörk í 3-2 sigri Argentínu á Nígeríu í lokaleik F-riðils á HM 2014 í fótbolta í dag.

Hann er nú jafn Brassanum Neymari á listanum yfir flest mörk skoruð en Börsungarnir tveir eru búnir að skora fjögur mörk hvor.

Messi kom Argentínu yfir strax á þriðju mínútu leiksins en AhmedMusa jafnaði fyrir Nígeríu í næstu sókn, 1-1.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom Messi Argentínu aftur yfir með marki beint úr aukspyrnu, 2-1. Það er eitthvað sem Maradona afrekaði aldrei á HM þannig áfram heldur umræðan um hvor er betri og hvor afrekaði hvað.

Ahmed Musa var einnig í stuði og jafnaði metin, 2-2, á annarri mínútu í seinni hálfleik en Marcos Rojo tryggði Argentínu sigurinn með marki eftir hornspyrnu á 50. mínútu, 3-2.

Markið var ekkert sérstaklega fallegt, ekkert frekar en varnarleikur Nígeríu, en hann fékk boltann í hnéð og af því fór hann í markið.

Argentína vinnur riðilinn með fullt hús stiga en Nígería slapp með skrekkinn þrátt fyrir tapið og fer áfram á fjórum stigum því Bosnía vann Íran á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×