Innlent

Björn Zoëga nýr formaður Vals

Bjarki Ármannsson skrifar
Björn var einn í framboði á aðalfundi Vals í vikunni.
Björn var einn í framboði á aðalfundi Vals í vikunni. Vísir/Anton Brink/GVA
Björn Zoëga, sem lét af störfum sem forstjóri Landspítalans í september síðastliðnum, er nýr formaður Vals. Hann staðfestir þetta í samtali við Vísi.

„Ég er búinn að vera Valsari alla mína ævi,“ segir Björn um tengsl sín við íþróttafélagið fornfræga. „Ég lék á sínum tíma einhverja 250 leiki í úrvalsdeild í körfubolta fyrir Val. Svo hef ég starfað sem læknir fyrir félagið, bæði í handbolta og fótbolta og svo auðvitað í körfuboltanum.“

Björn hefur gengt stjórnunarstöðu hjá fyrirtækinu Nextcode á Íslandi síðan í nóvember. Hann segir ekki gott að segja hversu mikinn tíma formannsstarfið nýja muni koma til með að taka.

„Eins og með alla svona sjálfboðavinnu, þá fer það svolítið bara eftir því hvað maður vill leggja mikla vinnu í þetta,“ segir hann. „En svo eru svo margir sem vinna þarna mikið og ég vona bara að ég sé að fara að leiða góðan hóp fólks.“

Björn var að sögn beðinn um að bjóða sig fram til stöðunnar og var einn í framboði á aðalfundi félagsins sem fór fram á fimmtudag. Hann segist vera spenntur fyrir því að takast á við verkefnið.

„Auðvitað, ég lít á þetta sem mjög skemmtilegt tækifæri,“segir Björn.  „Það verður gaman að gefa til baka til félagsins sem maður hefur bæði leikið með og starfað fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×