Innlent

Reglur brotnar við ráðningu konsertmeistara

Bjarki Ármannsson skrifar
Umboðsmaður Alþingis segir að ráðning Nicola Lolli hafi ekki verið í samræmi við reglur sveitarinnar.
Umboðsmaður Alþingis segir að ráðning Nicola Lolli hafi ekki verið í samræmi við reglur sveitarinnar. Vísir/GVA
Embætti Umboðsmanns Alþingis segir að málsmeðferð við ráðningu í starf fyrsta konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafi ekki verið í samræmi við reglur hljómsveitarinnar. Hinn ítalski Nicola Lolli hlaut stöðuna í mars en tveir aðrir umsækjendur lögðu fram kvörtun vegna ráðningunnar.

Í áliti embættisins segir að umsækjendurnir tveir hafi þreytt hæfnispróf í samræmi við auglýsingu og að þeim hafi í kjölfarið boðist að vera prófuð á tónleikum í stöðunni. Staðan hafi hins vegar verið auglýst laus til umsókna á ný á erlendum vettvangi og í kjölfarið haldið sérstakt hæfnispróf í London, þrátt fyrir að hinir tveir kæmu enn til greina í stöðuna.

Settur umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að áframhaldandi leit að fyrsta konsertmeistara, án þess að ljúka ráðningarferli gagnvart hinum umsækjendunum, hafi ekki verið í samræmi við reglur Sinfóníuhljómsveitar Íslands um ráðningu hljóðfæraleikara.

Embættið mælist til þess að hljómsveitin taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×