Erlent

Trierweiler enn á spítala

Elimar Hauksson skrifar
Hollande heldur blaðamannafund í þessari viku þar sem hann mun kynna stefnu sína í efnahagsmálum.
Hollande heldur blaðamannafund í þessari viku þar sem hann mun kynna stefnu sína í efnahagsmálum. Mynd/afp
Valerie Trierweiler, kærasta Francois Hollande frakklandsforseta, verður áfram haldið á spítala þar sem hún var lögð inn fyrir skemmstu eftir að fréttir af meintu framhjáhaldi forsetans rötuðu í fjölmiðla. Frá þessu greinir á fréttaveitu AFP.

Samkvæmt frönskum fréttamiðlum þjáist Trierweiler af lágum blóðþrýsting og er örmagna auk þess að vera mjög langt niðri andlega.

Hollande hefur verið sakaður um að hafa haldið framhjá Trierweiler með frönsku leikkonunni Julie Gayet en tímaritið Closer birti frétt um framhjáhaldið bæði í netmiðli sínum og á prenti en tók umfjöllunina út af vefnum eftir að Hollande kvaðst íhuga málssókn gegn tímaritinu.

Hollande hafði boðað til 500 manna blaðamannafundar sem fer fram á morgun þar sem hann hugðist skýra stefnu sína í efnahagsmálum. Athygli franskra fjölmiðla beinist hins vegar fyrst og fremst að einkalífi hans vegna málsins og er beðið með eftirvæntingu hvort hann muni nýta tækifærið til að skýra mál sitt á blaðamannafundinum eða hvort hann hyggist gefa út yfirlýsingu vegna málsins.

Fyrir umfjöllinuna var stuðningur við Hollande mjög lítill og mældist hann 15% í könnun sem var framkvæmd í nóvember en forseti í Frakklandi hefur ekki mælst með jafn lítinn stuðning í hálfa öld. Samkvæmt nýjum könnunum þar í landi virðist stuðningur við forsetann þó ekki hafa minnkað eftir umfjöllunina.

Julie Gayet er átján árum yngri en Hollande.Mynd/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×