Erlent

Nautabanar slasast illa á Spáni

Bjarki Ármannsson skrifar
Keppinautur Mora leikur hann grátt.
Keppinautur Mora leikur hann grátt. Vísir/AFP
Blása þurfti af nautaatshátíðina San Isidro í Madrid eftir að allir þrír nautabanarnir sem taka áttu þátt voru illa stangaðir af nautum.

Nautabaninn David Mora slasaðist hvað verst en keppinautur hans, 530 kílóa boli, stakk hann illa í fótlegginn og fleygði honum svo í loftið. Spænska dagblaðið El País sögðu sjónina „skelfilega.“ Skipuleggjendur segja að þetta sé í fyrsta sinn í 35 ára sögu San Isidro sem aflýsa þarf hátíðinni. Það er BBC sem greinir frá þessu.

Mora steig fyrstur á svið. Nautabaninn Antonio Nazare fylgdi á eftir honum og slasaðist á hné í bardaga sínum. Kollegi þeirra, Jimenez Fortes, var illa stunginn í hægri fótlegg og í mjöðm.

Um tvö þúsund nautaöt eru haldin árlega á Spáni, en þeim fer þó fækkandi. Tvö héröð, Katalónía og Kanaríeyjurnar, hafa bannað íþróttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×