Innlent

Sjúkraliðar komnir í verkfall í sólarhring

Snærós Sindradóttir skrifar
Kristín á. guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands. 
Fréttablaðið/Stefán
Kristín á. guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Fréttablaðið/Stefán
Sjúkraliðar hófu sólarhringslangt verkfall á miðnætti en lítið hefur þokast í kjaradeilu þeirra við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Fundi sjúkraliða var slitið hjá Ríkissáttasemjara um kvöldmatarleytið í gær. Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir að fundað verði áfram klukkan þrjú í dag.

„Það hefur ekkert gengið. Það eru ýmis útfærsluatriði sem strandar á og ekkert hefur verið rætt um launaliðinn svo það er töluvert í land.“

Hún segir að kröfur sjúkraliða snúi meðal annars að því að fá sömu hækkun og þeir sjúkraliðar sem starfa hjá ríkinu fengu með jafnlaunaátakinu á síðasta ári, „Á sínum tíma kom 4,8 prósenta hækkun með jafnlaunaátakinu sem þarf að leiðrétta hjá okkur afturvirkt. Svo viljum við auðvitað 2,8 prósent hækkun eins og aðrir. Það er þetta með afturvirknina sem er erfiðast.“

Hún segir að skjólstæðingar sjúkraliða sýni verkfallinu mikinn skilning, „Það er háalvarlegt að það endi í þessu verkfalli en svona er þetta.“

Fari svo að ekki verði samið munu sjúkraliðar fara í ótímabundið verkfall á fimmtudaginn kemur. Brugðist verður við með undanþágum frá verkfalli ef til neyðarástands kemur á einhverjum starfsstöðvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×