„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og fróðlegt æfingaferli enda sérstök sýning,“ segir leikkonan Saga Geirdal Jónsdóttir um leikritið Lísa og Lísa sem frumsýnt verður hjá Leikfélagi Akureyrar á morgun.
Saga leikur annað aðalhlutverkið á móti leikkonunni Sunnu Borg en þær bregða sér í hlutverk samkynhneigðs pars á sjötugsaldri sem ákveður að koma út úr skápnum eftir 30 ára sambúð, hálfvegis í felum.
Ungt skáld hvetur þær til að opinbera samband sitt á leiksviði sem gerir það að verkum að þær fara að rifja upp liðna tíma.
„Þetta er skemmtileg blanda af gamni og alvöru. Við höfum verið með áhorfendur á síðustu æfingum sem hafa hlegið og skemmt sér,“ segir Saga en nú þegar er uppselt á nokkrar sýningar.
Jón Gunnar Þórðarson leikstýrir verkinu sem sýnt er í Rýminu á Akureyri. Móheiður Helgadóttir sér um leikmyndina og Þóroddur Ingvarsson um lýsingu. Verkið er nýtt írskt verðlaunaverk eftir Amy Conroy.
Koma út úr skápnum eftir 30 ár
