KR vann sinn fyrsta sigur í riðli 1 í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta í dag þegar liðið lagði Keflavík í Reykjaneshöllinni, 2-1.
Almarr Ormarsson, sem gekk í raðir KR frá Fram í haust, kom gestunum yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en Jóhann B. Guðmundsson jafnaði leikinn á annarri mínútu. Alvöru byrjun á fótboltaleik.
Ekki var meira skorað fyrr en í uppbótartíma leiksins en þá skoraði Aron Bjarki Jósepsson sigurmark KR, 2-1, með skoti úr teignum eftir hornspyrnu.
KR er með þrjú stig eftir sigurinn eins og Keflavík en Blikar eru á toppnum með fjögur stig eftir að gera jafntefli gegn BÍ/Bolungarvík, 1-1, í Kórnum í morgun.
Markahrókurinn Árni Vilhjálmsson kom Breiðabliki yfir á 20. mínútu en Björgvin Stefánsson jafnaði metin, 1-1, á þeirri 65. og þar við sat. Gott stig hjá Djúpmönnum í Kópavogi og jafnframt þeirra fyrsta í riðlinum.
Aron Bjarki með sigurmark KR | Djúpmenn náðu stigi af Blikum
Tómas Þór Þórðarson skrifar
