Innlent

Björgunarsveitin Ernir heiðruð á sjómannadaginn

Samúel Karl Ólason skrifar
Úr belgjaslagnum.
Úr belgjaslagnum.
Björgunarsveitin Ernir mun hljóta heiðursviðurkenningu Sjómannadagsins í Bolungarvík og þar að auki 200 þúsund króna styrk til kaupa á fjarskiptabúnaði. Viðurkenningin er veitt vegna mikilvægs framlags til öryggis sjómanna og annarra og vegna óeigingjarns framlags þeirra til menningarviðburða svæðisins, eins og það segir í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinar.

„Björgunarsveitin Ernir er svo sannarlega sá hlekkur í samfélagi okkar sem aldrei má bresta“, segir Lárus Benediktsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur í tilkynningunni.

Undir það tekur Sigrún Bragadóttir formaður Menningar- og ferðamálaráðs: „Einhugur var hjá öllum í Menningar- og ferðamálaráði að veita Björgunarsveitinni Erni viðurkenningu fyrir öflugt og óeigingjarnt starf í þágu málaflokksins.“

Þá segir að heiðursviðurkenningin og styrkveitingin verði einn af hápunktum hátíðarhaldanna sem standi yfir frá fimmtudeginum 29. maí til sunnudagsins 1. júní.

Dorgkeppni verður haldin fyrir krakka á öllum aldri, kappróður, flekahlaup, belgjaslagur og ýmislegt fleira verður í gangi yfir helgina. Nánar má sjá á Facebooksíðu sjómannadagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×