Innlent

Rithöfundar ósáttir við greiðslur úr bókasafnssjóði

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Auður Jónsdóttir rithöfundur segist ætla að mótmæla skertum greiðslum úr bókasafnssjóði.
Auður Jónsdóttir rithöfundur segist ætla að mótmæla skertum greiðslum úr bókasafnssjóði.
Auður Jónsdóttir rithöfundur, sem meðal annars hefur skrifað bækurnar Ósjálfrátt og Fólkið í kjallaranum, kvartar yfir lækkun á greiðslum til rithöfunda úr bókasafnssjóði á Facebook síðu sinni.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að rithöfundar og aðrir sem rétt eiga á úthlutun úr sjóðnum vegna afnota verka þeirra á bókasöfnum fá í ár 17,85 krónur fyrir hvert útlán. Í fyrra var úthlutun fyrir hvert útlán 36,90 krónur.

Auður segir: „Þokkalega súra ríkisstjórn, viltu gjöra svo vel að skila mér (og öllum hinum rithöfundunum) helmingnum af árlegum bókasafnaútlánatekjum mínum sem ég átti að fá núna en þú marghöfða æringi ákvaðst í geðþóttakasti að nota til annars, eins og til dæmis til að lækka veiðileyfagjaldið og hátekjuskatta!“

Margir taka undir með Auði en meðal þeirra sem tekur þátt í umræðunni er Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands og ritari úthlutunarnefndar greiðslna fyrir afnot bóka á bókasöfnum. Hún sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að þetta væru náttúrulega engir peningar sem höfundar væru að fá fyrir lán á verkum sínum en þær fari eftir ákvörðunum fjárveitingavaldsins á hverju ári.

Yfirleitt finnst mér gaman að leggja peninga (sem þeir eiga) inn á reikninga rithöfunda. það var ekkert skemmtilegt í dag,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður segir í athugasemdum við innlegg Auðar að þetta hafi legið ljóst fyrir frá því fjárlögin voru birt. Rithöfundasambandið hafi verið að glíma við þetta frá því snemma á síðasta ári.

Auður segir þetta hafa farið framhjá sér en nú ætli hún virkilega að mótmæla.

Fundað með ráðherra í síðustu viku

Ragnheiður segir sambandið hafa fundað með Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra í síðustu viku. Hún segir erindum búið að rigna yfir ráðherrann og formanni sambandsins hafi komið mótmælum á framfæri.

Ekki kemur fram í máli Ragnheiðar hvað hafi komið út úr fundinum með Illuga.

Umræðurnar má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×